Það hefur eitt og annað gerst á síðustu dögum sem við höfum ekki greint frá. Hér má sjá nokkra fréttamola úr UFC.
Werdum mætir Miocic
Það verða þeir Fabricio Werdum og Stipe Miocic sem verða í aðalbardaganum á UFC 198 í Brasilíu. Þungavigtarmeistarinn Werdum átti að mæta Cain Velasquez á UFC 196 en eftir að Velasquez dró sig úr bardaganum ákvað meistarinn að gera hið sama. Nú fær Miocic sitt langþráða tækifæri á titlinum en bardagarnir fara fram á 40.000 sæta leikvangi í Brasilíu.
Ellenberger ekki lengur í UFC
Jake Ellenberger hefur verið látinn fara úr UFC eftir fimm töp í síðustu sex bardögum. Ellenberger hefur átt afar erfitt uppdráttar á undanförnum árum en töpin fimm hafa öll komið gegn ansi sterkum andstæðingum á borð við Rory MacDonald, Stephen Thompson og Robbie Lawler. Telja má líklegt að Ellenberger fái samning í Bellator en hinn þrítugi Ellenberger barðist 16 bardaga á rúmum sex árum í UFC.
Shogun Rua meiddur
Mauricio ‘Shogun’ Rua átti að mæta Rashad Evans á UFC on Fox 19 bardagakvöldinu í apríl. Shogun getur ekki keppt í apríl vegna meiðsla en Glover Teixeira kemur í hans stað. Bardagi Shogun og Evans hefur lengi verið í smíðum en upphaflega áttu þeir að mætast árið 2011 er Shogun var meistarinn. Þá meiddist Evans og í hans stað kom Jon Jones.