Alistair Overeem trompaði frábært kvöld fyrir Hollendinga með sigri á Andrei Arlovski í aðalbardaga kvöldsins.
Kapparnir stóðu lengi vel í 1. lotu og byrjaði Arlovski vel með fína pressu. Overeem sótti í sig veðrið og náði nokkrum góðum höggum áður en hann fór í fellu. Í gólfinu veitti hann Arlovski nokkur þung högg áður en þeir stóðu upp rétt í lok lotunnar.
Í 2. lotu byrjaði Overeem að hitna. Hann náði þungu sparki í skrokkinn og skömmu síðar framsparki í andlit Arlovski. Framsparkinu fylgdi hann strax eftir með vinstri krók og kláraði hann svo Arlovski í gólfinu. Alistair Overeem sigraði Andrei Arlovski eftir 1:12 í 2. lotu með tæknilegu rothöggi.
Í viðtalinu eftir bardagann sagði Overeem að táin sín hefði dottið úr lið eftir framsparkið. Hann óskaði eftir titilbardaga við Fabricio Werdum eða Stipe Miocic í Madison Square Garden í nóvember.