Upphitunarbardögunum á UFC bardagakvöldinu í Rotterdam var að ljúka. Tveir skemmtilegir bardagar voru að klárast og núna eru bara þrír bardagar í Gunnar.
Millivigt: Magnus Cedenblad gegn Garreth McLellan
Svíinn Magnus Cedenblad stjórnaði pressunni á McLellan allan tímann. Cedenblad sparkaði í McLellan að vild í fyrstu lotu án þess þó að valda áberandi skaða. Í 2. lotu henti Cedenblad í háspark sem McLellan varði með höndinni en sparkið komst samt í gegn. McLellan stoppaði og byrjaði Cedenblad að raða inn höggunum. Dómarinn hafði séð nóg og stöðvaði bardagann í 2. lotu. Cedenblad sigrar eftir tæknilegt rothögg í 2. lotu.
Léttvigt: Rustam Khabilov gegn Chris Wade
Rustam Khabilov og Chris Wade mættust í síðasta bardaganum áður en aðalhluti bardagakvöldsins hófst. Khabilov tók fyrstu lotuna þar sem hann stjórnaði fellunum en Wade átti sín augnablik. Í 2. lotu lenti Wade geggjuðu hásparki í Khabilov sem meiddist illa við það. Wade reyndi að klára en var of æstur og endaði Khabilov á að taka bakið hans. Wade náði þó að komast ofan á en var þá kominn í „triangle“ hengingu. Wade varðist þó vel og stjórnaði Khabilov um tíma. Báðir stóðu upp og kláraði Khabilov lotuna á fellu. Ótrúlegt miðað við hásparkið sem hann fékk skömmu áður.
Í 3. lotu hafði Khabilov mikla yfirburði enda virtist Wade vera orðinn mjög þreyttur. Khabilov sigraði á endanum eftir einróma dómaraákvörðun. Frábær sigur hjá Khabilov eftir að hafa verið í miklum vandræðum.