UFC bardagakvöldið í Rotterdam heldur áfram og var tveimur áhugaverðum bardögum að ljúka.
Léttvigt: Reza Madadi gegn Yan Cabral
Fyrstu tvær loturnar voru nokkuð jafnar og náði þeir hvor um sig fellu. Cabral var með góða fellu í 1. lotu og náði bakinu á Madadi en Svíinn slapp. Cabral er með 11 sigra eftir uppgjafartök og var Madadi eflaust glaður að hafa sloppið úr þessari stöðu.
Í 2. lotu fengum við mikið af því sama en Madadi náði fellu. Madadi vildi þó ekki vera lengi í „guardinu“ hjá Cabral og stóð upp. Í 3. lotu náði Madadi hörku upphöggi og fylgdi eftir með beinni hægri. Cabral var augljóslega mjög vankaður og fylgdi Madadi höggunum eftir með fléttu og kláraði Cabral eftir 1:56 í 3. lotu. Flottur sigur hjá Madadi sem þurfti nauðsynlega á þessu að halda.
Léttvigt: Jon Tuck gegn Josh Emmett
Josh Emmett kom inn í þennan bardaga bara með nokkura daga fyrirvara. Hann átti að berjast annars staðar í gær en fékk kallið frá UFC þegar Nick Hein, upphaflegi andstæðingur Jon Tuck, meiddist. Emmett útboxaði Tuck í tvær lotur og átti Tuck engin svör. Í rauninni gerði Tuck ekkert fyrr en 30 sekúndur voru eftir af 3. lotunni og sparkaði hann ítrekað í Emmett. Það hafði augljóslega áhrif á Emmett en þetta var of lítið og of seint.
Emmett átti í miklum vandræðum með höndina á sér í lok bardagans og sagði hann í viðtalinu eftir bardagann að bein stæði úr einum af fingrum hans. Flestir töldu þetta öruggan sigur Emmett enda gerði Tuck ekkert nema í þriðju lotu. Af einhverjum ástæðum taldi einn dómarann að Tuck hefði unnið eina lotu og var þetta því sigur eftir klofna dómaraákvörðun.