UFC hefur samið við hinn bandaríska Ben Nguyen. Nafnið hringir eflaust ekki mörgum bjöllum en Nguyen fékk sína 15 mínútna frægð á dögunum er gamalt myndband af honum fór eins og eldur um sinu á netinu.
Í myndbandinu var sýnt frá vigtun þar sem andstæðingur Ben Nguyen (13-5) reyndi að ógna honum og síðar klippt í bardagann sjálfan þar sem Nguyen rotaði hann eftir aðeins 25 sekúndur.
Bardaginn fór fram í mars 2014 en myndbandið hér að ofan kom á netið í mars á þessu ári. Það má leiða af því líkur að myndbandið hafi vakið athygli á kappanum sem varð til þess að UFC samdi við hann. Nguyen berst í fluguvigt en hann hefur sigrað sjö bardaga í röð og æfir að mestu hjá Tiger Muay Thai í Tælandi en er fæddur og uppalinn í Bandaríkjunum.