Umboðsmaður Conor, Audie Attar, fullyrðir að við höfum ekki séð það síðasta af Conor McGregor í bardagaheiminum. Að sögn Attar mun Conor snúa aftur í MMA heiminn.
Conor McGregor tapaði fyrir Floyd Mayweather í risa boxbardaga síðastliðið laugardagskvöld en Conor tapaði eftir tæknilegt rothögg í 10. lotu.
Eftir bardagann kvaðst Attar sjá marga möguleika framundan fyrir Conor. „Hann vill fullkomna þríleikinn með Nate Diaz. Khabib hefur skorað á hann, svo eru auðvitað þeir Tony Ferguson og Kevin Lee að berjast um bráðabirgðarbeltið. Svo er Max Holloway fjaðurvigtarmeistarinn núna sem Conor vann eftir að hafa slitið krossband. Það eru nokkrir möguleikar í boði og hann elskar MMA,“ sagði Attar við MMA Junkie.
Margir aðdáendur Írans óttast að hann eigi hreinlega eftir að hætta í bardagaíþróttum en talið er að Conor hafi fengið 100 milljónir dollara fyrir bardagann.
„Allir halda að hann eigi eftir að hætta þar sem hann á svo mikinn pening. En hann er metnaðarfullur, mjög metnaðarfullur og elskar að berjast. Hann elskar að keppa og er frábær atvinnuíþróttamaður. Við eigum eftir að sjá mun meira af Conor McGregor. Sjáum til hvað gerist næst.“
Conor byrjaði atvinnuferilinn í boxi á tapi og var hann strax farinn að hugsa um hvað fór úrskeiðis eftir bardagann. „Hann er svo gagnrýninn á sjálfan sig. Hann var strax farinn að horfa á og kryfja bardagann til að sjá hvað fór úrskeiðis en það minnir mig á fyrri bardagann gegn Diaz. Við sáum hann þarna auðmjúkan eftir tap, læra, vaxa og koma til baka í enduratinu [gegn Diaz] sem allt annar maður. Þetta var svipuð tilfinning núna. Þetta var súrsætt en ég samgleðst honum innilega.“