Sú er venjan að bardagamenn mega ekki keppa í ákveðinn fjölda daga eftir bardaga vegna höfuðhögga, meiðsla eða lyfjaprófsmiferla en Johnny Eduardo fékk undarlegt bann.
Þann seinasta laugardag fór fram UFC Fight Night 40. Aðalbardagi kvöldsins var milli Matt Brown og Erick Silva sem fáir aðdáendur létu framhjá sér fara. Fyrr um kvöldið fór fram bardagi milli Eddie Wineland og Johnny Eduardo. Brasilíumaðurinn Eduardo gerði sér lítið fyrir og sigraði Wineland með glæsilegu rothöggi og nældi sér í frammistöðubónus frá UFC.
Eftir bardagann birti íþróttasamband Ohio tímabundna sviptingu bardagaleyfis þeirra sem börðust þetta kvöld. Til að mynda má Erik Koch ekki berjast í 30 daga vegna rothöggsins sem hann fékk. Það sem stingur í augun er hins vegar sú staðreynd að Johnny Eduardo fær 30 daga sviptingu vegna óíþróttamannslegrar framkomu. Í sigurvímu kastaði Eduardo munnstykkinu úr sér út í áhorfendafjöldann eftir að bardaganum lauk. Líklegast hefur áhorfandi kvartað í íþróttasamband Ohio vegna atviksins og þess vegna hefur Eduardo fengið bannið. Þessi hegðun, að kasta munnstykkinu úr sér eftir bardaga, er ekki ný af nálinni og því hlítur íþróttasambandið hafa fengið kvörtun frá áhorfendum.
Bannið mun þó ekki hafa nein áhrif á Eduardo þar sem oftast fá allir bardagamenn 30 daga bann við æfingum frá læknum.