Friday, March 29, 2024
HomeForsíðaKenny Baker: "Eftir 5 ár eigið þið eftir að taka yfir MMA...

Kenny Baker: “Eftir 5 ár eigið þið eftir að taka yfir MMA heiminn”

Kenny Baker er 30 ára svart belti í BJJ undir Braulio Estima og hefur margoft komið hingað til lands til að æfa. Hann kom fyrst hingað 2009 og hefur æft með Gunnari Nelson í Mjölni, í Manchester, í New York og Írlandi. Við fengum hann í skemmtilegt viðtal og fengum innsýn í BJJ líf hans.

KennyB2

Hvenær byrjaðiru í BJJ og af hverju?

Ég hef æft bardagaíþróttir frá því ég var 5 ára gamall. Var svart belti í karate og æfði box lengi en fjölskyldan mín hefur lengi verið í boxi. Mér fannst samt alltaf vanta eitthvað, mér fannst ég ekki öruggur um að geta bjargað mér ef ég myndi lenda í áflogum við stærri mann. Ég sá UFC 1 eða 2 og það voru fyrstu kynnin mín af glímu þegar Royce Gracie notaði BJJ til að sigra stærri menn. Ég fann MMA klúbb en á þeim tíma var lítið sem ekkert um MMA eða BJJ þar sem ég bjó og fyrstu tvö árin vorum við eiginlega bara að leika okkur. Þetta var ekki mjög tæknilegt, snérist mest um að grípa um hausinn á andstæðingnum og að kreysta. Vinur minn kom heim frá Bandaríkjunum þar sem hann hafði lært meiri tækni og það gladdi mig mikið.

Þú barðist við Árna Ísaksson í þínum öðrum MMA bardaga. Hvernig var að berjast við Árna?

Ég var búinn að æfa MMA í 6 mánuði og mér var boðið að berjast við Árna. Ég hélt ég væri rosa harður og fannst það ekkert mál en þegar bardaginn byrjaði fann ég strax að þessi gæji var grjótharður. Þetta er eini bardaginn sem ég hef verið í þar sem ég hef bæði verið rotaður og tapað eftir uppgjafartak! Hann var algjört dýr í búrinu, auðvitað var hann betri bardagamaður en ég en það sem stóð upp úr var hversu harður hann var. Hann kýldi mig niður með vinstri krók minnir mig og kláraði mig svo með “kimura” uppgjafartaki. Það var í raun þannig sem ég kynntist Gunna (Gunnar Nelson) og SBG liðinu þar sem John Kavanagh var með Árna. En Árni er grjótharður og algjört dýr. Þó útkoman í bardaganum hafi ekki verið mér í hag var þetta góð reynsla.

Þú ert svart belti undir hinum heimsfræga Braulio Estima, hvernig er það að glíma við hann?

Pressan og þunginn sem hann setur á þig er óbærilegur! Hann er vissulega stór og sterkur strákur en tæknin sem hann notar til að setja pressu á þig er eins og að vera kæfður til dauða! Í gegnum árin hef ég glímt mikið við hann og hann gefur sér alltaf tíma til að hjálpa mér og ég kann virkilega að meta það. Hann er algjört skrímsli en líka einn besti þjálfari sem ég hef séð. Aðferðir hans eru mjög líkar SBG þar sem hann kennir frekar hugmyndir og hugtök sem fólk getur meðtekið fremur en bara tækni. Það má finna tækni hvar sem er en það að vita hvenær, hvers vegna og hvernig þú framkvæmir tæknina er það sem mér líkar best við þjálfun Estima.

KennyB3

Þú komst til Íslands fyrst árið 2009, af hverju ákvaðstu að koma hingað?

Ég hafði hitt Gunna nokkrum sinnum í Manchester og Írlandi þar sem við æfðum saman. Svo vorum við bara að spjalla á netinu og þá bauð hann mér að koma hingað að æfa. Ég elska þetta land, einn af mínum uppáhalds stöðum í heiminum. Ég hef komið hingað átta sinnum og í hvert sinn sem ég kem hingað langar mig bara að koma aftur og aftur.

Hvernig hefur getustigið á Íslandi í BJJ breyst frá því að þú komst hingað fyrst árið 2009?

Getustigið hérna í BJJ er mjög gott. BJJ-stíllinn hérna er mjög ólíkur því sem ég hef kynnst þar sem þið sparrið (frjáls glíma) mjög mikið. Þið eruð ekki eins mikið í að æfa tækni heldur einbeitið ykkur meira af því að glíma frjálst. Það sem ég tek eftir hér er að allir kunna mjög vel að hreyfa sig nátturulega. Það kemur frá því hvernig þið æfið. Ég get verið að æfa með hvítu belti hér og það getur verið erfitt því hvítu beltin hér hreyfa sig mun betur en hvít belti annars staðar. Gunni er auðvitað mjög góður og þið hafið marga frábæra þjálfara en mér finnst eins og getustigið hérna sé að verða fáranlega gott. Eftir 5 ár eigið þið eftir að taka yfir MMA heiminn!

Þú hefur mikið æft hjá Renzo Gracie í New York, getur þú líst stemningunni sem ríkir þar og reynslunni við það að æfa þar?

Renzo Gracie bardagafélagið í New York er einstakur staður. Mjög stórt félag með mjög góða þjálfara og auðvitað frábæra keppnismenn. Stærsti kosturinn við félagið er fjölbreytileikinn. Þar erum við með John Danaher, sem er mjög tæknilegur í BJJ, og svo ertu með keppnismennina og að glíma við þá er eins og að fara í stríð. Þaðan er fólk af ólíkum toga með ólíkt hugarfar og það finnst mér vera stærsti kosturinn við að æfa þar.

KennyB

Hver er besti glímumaður sem þú hefur glímt við?

Ég hef glímt við marga góða en ég held ég verði að segja Braulio Estima. Það er frábært að æfa með Gunna, hann er með svipað hugarfar og ég og svo æfi ég með mörgum frábærum glímumönnum heima en ég verð að segja að Estima sé sá besti.

Hvernig var að búa með Gunnari í New York? Einhverjar áhugaverðar sögur?

Ég kann mikið af góðum sögum og gæti verið hér í allan dag að rifja þær upp, sumar eiga þó ekki heima í fjölmiðlum (hlær). Þetta eru margar sögur, eins og t.d. þegar ég meig á Gunna, þegar hann nánast drap mig eftir að hann saltaði steikina mína, þegar Gunni sendi mig á spítala eftir æfingu en ein sagan sem ég get sagt er kannski skrítin. Þegar við vorum í New York bjuggum við í hálfgerðri svínastíu. Ég fór í sturtu og sá að allur klósettpappírinn var búinn. Ég spurði Gunna hvort hann hefði klárað allan klósettpappírinn en hann sagðist ekki nota klósettpappír. Í sturtunni hugsaði ég lengi hvað hann væri að nota í staðinn fyrir klósettpappírinn. Notar sokka eða buxur, hvað ætli hann geri? Þegar ég kom úr sturtunni spurði ég hann hvað hann notaði í staðinn, “ah bara gömlu góðu aðferðina, skola í sturtunni” svaraði Gunni. Þetta var virkilega skemmtilegt að vita þegar ég var nýbúinn að vera í sömu sturtu.

Hvað finnst þér skipta mestu máli við að ná árangri í glímu?

Ég gæti verið hér í allan dag að tala um hvað þarf til að ná árangri í glímu, það eru svo margar mismunandi leiðir og enginn tveir einstaklingar eins. Það hljómar eins og klisja en þú verður að hafa gaman af því sem þú ert að gera og þá er ég ekki að tala um að hafa bara gaman á æfingu. Þú þarft að hafa ástríðu fyrir íþróttinni, leggja allt í íþróttina, vera auðmjúkur og auðvitað æfa mikið en til að geta gert það þarftu að hafa gaman af því. Ef þú hefur ekki gaman af því af hverju að leggja svona mikið í þetta?

Hvernig eru æfingarnar hjá þér?

Í gegnum árin hef ég breytt æfingarvenjum mínum mikið og ég pæli mikið í því hvernig ég æfi. Venjulegur dagur hjá mér hefst á tækniæfingu á morgnana (e. drilling) og svo einangra ég ákveðnar stöður og svo um kvöldið glími ég frjálst. Áður fyrr “drillaði” ég aldrei og fannst það ekki rétta leiðin til að æfa en á síðustu tveimur árum hef ég gert meira af því og mér finnst það hafa bætt mig mjög mikið. Mér finnst samt að byrjendur ættu að eyða minni tíma í að “drilla” og einbeita sér meira af því að glíma frjálst, eins og er gert hér á Íslandi.

Hvernig helduru að Gunnari Nelson eigi eftir að ganga gegn Ryan LaFlare, stórum bandarískum glímumanni?

Gunni höndlar glímumenn (e. wrestlers) og er vanur að eiga við þá. Ég held að hreyfingarnar hans, tímasetningarnar og hugurinn eigi eftir að verða of mikið fyrir LaFlare. Hann á eftir að vera erfiður í byrjun og á eftir að koma með þennan hefðbundna bandaríska glímustíl, hausinn fram og pressa áfram, en Gunni er mjög skynsamur og veit hvernig á að hreyfa sig. Gunni er auðvitað undraverður glímumaður og ég held að LaFlare eigi ekki eftir að ráða við hann. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig þetta endar en Gunni finnur alltaf leið til sigurs.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular