spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaUpphitun fyrir UFC 167 (þriðji hluti)

Upphitun fyrir UFC 167 (þriðji hluti)

Í kvöld fer fram einn stærsti bardagi ársins þegar veltivigtarmeistarinn sjálfur, George St. Pierre, mætir hinum höggþunga Johny Hendricks. Í þessum síðasta hluta upphitunarinnar kíkjum við á þessa tvo kappa en þeir eru óumdeilanlega tveir bestu veltivigtarmenn heims.

Johny Hendricks fæddist í Oklahoma í september 1983 og er því nýorðinn þrítugur. Frá unga aldri hefur hann æft glímu og átti virkilega góðan feril í bandarísku háskólaglímunni. Hann glímdi í 157 punda og 165 punda flokki og hlaut „All-American“ nafnbótina öll fjögur árin sín. Hendricks hóf MMA ferilinn sinn árið 2007 og barðist sinn fyrsta bardaga í UFC í ágúst 2009. Hann hefur nú barist ellefu bardaga í átthyrningnum en vakti ekki mikla athygli fyrr en hann rotaði Jon Fitch eftir 12 sekúndur í desember 2011.

Síðan þá hefur hann sigrað Josh Koscheck (umdeild dómaraákvörðun), Martin Kampmann (rothögg eftir 46 sekúndur) og Carlos Condit (dómaraákvörðun) í frábærum bardaga.

 

Johny Hendricks er virkilega fær glímumaður en það sem hefur einkennt hann undanfarin tvö ár er höggþunginn hans. Hann er langt í frá að vera tæknilega góður boxari en hann er samt virkilega góður í að hitta með sinni öflugu vinstri hönd. Af 16 sigrum hans hafa 8 komið eftir rothögg. Ef Hendricks nær að hitta meistarann almennilega á hökuna þá er hann að fara að hirða beltið. Stóra spurningin er, nær Hendricks að hitta meistarann?

George St. Pierre er ríkjandi veltivigtarmeistarinn og hefur varið beltið sitt í átta skipti. Hann sigraði beltið fyrst í nóvember 2006 þegar hann rotaði Matt Hughes. Fyrsta titilvörnin var gegn Matt Serra og bjóst enginn við að Serra ætti séns í meistarann. St. Pierre trúði því  sjálfur að Serra ætti ekki mikinn séns í sig og æfði því mjög lítið fyrir bardagann og stundaði næturlífið grimmt. Í upphituninni inni í klefa fyrir bardagann leit St. Pierre vel út. Þegar starfsmaður UFC spurði meistarann hvort hann væri tilbúinn og gaf til kynna að hann ætti að labba í búrið gerðist eitthvað í huga hans. Á því augnabliki áttaði hann sig á því að hann væri ekki búinn að æfa nóg og væri í raun ekki tilbúinn. Á leið sinni í búrið var hann nánast í kvíðakasti. Það kom bersýnilega í ljós að hann var ekki tilbúinn en Matt Serra rotaði hann í 2. lotu og er enn í dag minnst sem óvæntustu úrslit í sögu UFC.

George St. Pierre var í miklu áfalli yfir þessu tapi og fór til íþróttasálfræðings. Hann hét því að láta þetta aldrei gerast aftur og hefur alltaf mætt gríðarlega undirbúinn í alla bardaga. Það hefur skilað sér þar sem hann hefur unnið ellefu bardaga í röð!

St. Pierre hefur verið mikið gagnrýndur fyrir að klára ekki bardaga sína þrátt fyrir mikla yfirburði. Í öllu kynningarefni fyrir alla bardaga sína segir hann ætla að klára andstæðinginn en alltaf endar þetta hjá dómurunum. Hann er öflugasti „MMA-wrestler“ í UFC þrátt fyrir að hafa aldrei glímt á sínum yngri árum líkt og Chael Sonnen og Johny Hendricks gerðu. Hann hefur náð öllum andstæðingum sínum niður og er með gríðarlega öfluga felluvörn eins og má sjá hér.

George St. Pierre og yfirþjálfari hans, Firas Zahabi, eru gríðarlega klókir þegar kemur að því að gera rétta leikáætlun fyrir bardaga.  Það á stóran þátt í velgengni meistarans og verður gaman að sjá hvaða leikáætlun þeir koma með í kvöld gegn Hendricks.

Spá MMA frétta: George St. Pierre er of klókur og sigrar eftir dómarákvörðun.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular