Valentina Shevchenko hefur ákveðið að fara niður í fluguvigt og er komin með sinn fyrsta bardaga þar. Shevchenko mætir Priscila Cahoeira í febrúar.
Valentina Shevchenko hefur ekkert barist síðan hún tapaði titilbardaganum sínum í bantamvigt kvenna gegn Amöndu Nunes í haust. Núna hefur hún ákveðið að fara niður um flokk í nýstofnaða fluguvigt kvenna.
Andstæðingur hennar, Priscila Cahoeira, hefur unnið alla átta bardaga sína á ferlinum. Þetta verður hennar fyrsti bardagi í UFC en bardaginn fer fram á UFC bardagakvöldinu í Belem þann 3. febrúar. Cahoeira átti að vera á TUF Finale kvöldinu fyrr í desember en fékk ekki vegabréfsáritun í tæka tíð.
Shevchenko hefur oft þótt lítil í bantamvigtinni og verður áhugavert að sjá hana í fluguvigtinni. Shevchenko verður að teljast sem ansi líklegur áskorandi í þessum nýja þyngdarflokki í UFC.