Valgerður Guðsteinsdóttir, farsælasta hnefaleikakona Íslendinga fyrr og síðar, er komin með sinn næsta bardaga. Valgerður mætir þá hinni norsku Ingrid Egner í aðalbardaga kvöldsins á norsku boxkvöldi.
Valgerður er eina atvinnukonan okkar í boxinu. Næsti bardagi hennar hefur nú verið staðfestur en Valgerður mun mæta hinni norsku Ingrid Egner í bardaga um Eystrasaltsbeltið (Baltic Boxing Union Title) í aðalbardaga „This is My House 2“ bardagakvöldsins sem fram fer 20. október í Skien Fritidspark í Osló.
Andstæðingur Valgerðar, Ingrid Egner, er hátt skrifuð og gríðarlega reynslumikil hnefaleikakona. Hún er með rúmlega 150 áhugamannabardaga á ferilskránni og er tífaldur Noregsmeistari í sínum þyngdarflokki.
„Mér lýst mjög vel á hana. Hún er andstæðingur sem mig hefur lengi langað að fara á móti. Hún var legend í áhugamannaboxinu og ég hef vitað af henni þar í nokkur ár. Við erum hins vegar í atvinnuboxinu. Hér skiptir áhugamannaferillinn nákvæmlega engu máli og hér hef ég meiri reynslu en hún þó svo að ég sé sennilega hugsuð sem underdog af þeim sem eru að skipuleggja bardagakvöldið. Það er staða sem ég er vön að vera í og hentar mér mjög vel því öll pressan er þá á henni,” segir Valgerður er fram kemur í fréttatilkynningu.
„Það eru engir andstæðingar auðveldir í atvinnuboxinu og þessi stelpa er hörkuboxari. Snjöll, hröð og hreyfanleg. Hún er lægri en ég og með styttri faðm, en það sem ég hef séð af henni þá er hún mjög vinnusöm og pressar fast. Við erum talsvert ólíkar hvað þetta varðar. Ég er meiri powerboxari. Set kraft í höggin og vel þau vandlega en mér hentar ansi vel að vera með andstæðing sem pressar og sækir á mig. Þannig að ég hlakka bara til.“
Valgerður dvaldi í Stokkhólmi í 10 daga í september og æfði þar af krafti með nokkrum af helstu kvenboxurum Svíþjóðar – þar á meðal Mikaelu Lauren sem er margfaldur heimsmeistari.
„Bardaginn er búinn að liggja fyrir í talsverðan tíma þannig að ég er búin að vera í æfingabúðum í nokkrar vikur nú þegar. Það mætti segja að þær hafi hafist formlega í Svíþjóð þegar ég var þar. Það var lærdómsríkt að skipta um umhverfi og æfa með öðrum atvinnukonum og ég tók helling með mér heim til að vinna úr þaðan. Mikaela Lauren er ótrúleg íþróttakona og að hún hafi gefið sér tíma til að sparra við mig og gefa mér góð ráð er eitthvað sem ég er henni mjög þakklát fyrir. Sama gildir með allar hinar stelpurnar sem tóku á móti mér. Frábært að vera búin að mynda þessi tengsl og eiga möguleika á að æfa aftur með þeim. Eina skuggahliðin er að ég mun örugglega þurfa að mæta einhverri þeirra fyrr en síðar í bardaga. Við erum allar að elta sama drauminn.”
Fyrr á þessu ári bauðst Valgerði að berjast með átta daga fyrirvara gegn Katharinu Thanderz um WBC Heimsmeistaratitilinn. Hún lét slag að sjálfsögðu standa og þrátt fyrir frábæra frammistöðu þá náði andstæðingur hennar að bera nauman sigur úr býtum. Frammistaða Valgerðar vakti hins vegar verðskuldaða athygli og ýmsar dyr hafa opnast síðan þá.
„Já ég held það sé nokkuð öruggt að mér hefði ekki verið boðið að fara á móti Ingrid Egner í aðalbardaga á stóru boxkvöldi ef ég hefði ekki verið búin að berjast um WBC titilinn. Ég ætla samt bara ekkert að spá of mikið í því. Það er svo mikið af tilviljunum sem ráða því hvaða tækifæri maður fær en það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir góðan undirbúning og góða frammistöðu. Ég veit hvers megnug ég er. Ég þarf bara að undirbúa mig nógu vel til að ég geti sýnt það. Það er það sem telur á endanum og það er það sem ég einbeiti mér að,” segir Valgerður.
Valgerður, sem er 33 ára gömul, er sem stendur búin með fjóra atvinnubardaga og hefur sigrað þrjá þeirra og tapaði svo þeim seinasta naumlega á stigum. Hún lítur framtíðina björtum augum en viðurkennir að þetta taki talsverðan toll.
„Það er ekki sjálfgefið að koma frá landi þar sem atvinnubox er ólöglegt og komast af stað inn í íþróttina. Fyrstu bardagarnir á atvinnuferlinum eru oftar en ekki þannig að maður borgar með sér til að komast í þá. Það er mikill kostnaður sem fer í keppnisferðir og æfingaferðir og það er langt þannig tímabil sem líður áður en þetta fer að skila tekjum til baka. Ég stend ennþá í þessu harki og fjárfesti öllu sem ég afla í því að halda áfram því með hverju skrefinu sem ég stíg þá kemst ég nær því að geta raunverulega haft atvinnu af þessu. Það eru nú þegar margir sem hafa hjálpað mér sem ég verð ævinlega þakklát, en á þessum tímapunkti þá mynd þaði breyta mjög miklu fyrir mig að fá einn til tvo kostunaraðila sem eru reiðubúnir til að styrkja og raunverulega fjárfesta í mér. Ef það eru einhver fyrirtæki þarna úti sem vilja styrkja fyrstu íslensku atvinnukonuna í hnefaleikum þá hvet ég þau til að hafa samband.”
Bardagi Valgerðar og Ingrid Egner verður í beinni útsendingu á Skandinavísku kapalstöðinni Viasat. Nánari upplýsingar um tímasetningar og annað slíkt munu birtast þegar nær dregur bardaganum.