Valgerður Guðsteinsdóttir, fyrsta og eina atvinnuhnefaleikakona Íslands, stígur aftur í hringinn þann 27. nóvember. Valgerður stendur fyrir söfnun til að standa undir kostnaði við bardagann.
Valgerður er 4-2 í atvinnuhnefaleikum og hefur ekki keppt síðan í mars 2019 en þá sigraði hún Sabina Mishchenko með tæknilegu rothöggi í 5. lotu. Erfiðlega hefur gengið að fá bardaga síðan og hefur auðvitað heimsfaraldur sett strik í reikninginn hjá íþróttamönnum um allan heim.
Nú þegar viðburðarhald er komið aftur á fullt er Valgerður komin með bardaga. Hún mætir þá Diana Starkova frá Úkraínu á Night of Champions boxkvöldi í Svíþjóð. Starkova er 21 árs og 1-0-1 í atvinnuhnefaleikum en var með 41 bardaga í áhugahnefaleikum.
Þar sem langt er síðan Valgerður keppti síðast var hún æst í að ná einum bardaga fyrir áramót og því tilbúin að standa undir meiri kostnaði sjálf en vanalega. Valgerður stendur því fyrir söfnun á netinu:
„Þar sem það er langt síðan ég barðist síðast þarf ég að standa undir kostnaði fyrir næsta bardaga til að koma ferlinum mínum aftur á flug í þessu heimsástandi. Inni í þessum kostnaði er bardagapláss og tengdur kostnaður á viðburðinum, ferðakostnaður, gisting og uppihald, læknaskoðanir, vottorð og fleira. Ég ákvað því að stofna þessa söfnun til að hjálpa mér með kostnaðinn og þigg öll framlög með miklum þökkum,“ segir í textanum hjá söfnuninni.
Valgerður er því með staðfestan bardaga eftir mánuð og verður spennandi að fylgjast með bardaganum. Nánari upplýsingar um söfnunina má finna hér.