spot_img
Monday, November 18, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaValgerður: Veit að ég er tilbúin

Valgerður: Veit að ég er tilbúin

Valgerður Guðsteinsdóttir keppir sinn stærsta boxbardaga á ferlinum þegar hún fær titilbardaga í Noregi. Bardaginn fer fram á laugardaginn á stóru hnefaleikakvöldi í Osló og verður aðalbardagi kvöldsins.

Valgerður mætir hinni norsku Katarinu Thanderz nú á laugardaginn og er barist upp á svo kallaðan „International title“ hjá WBC sambandinu. Beltið er það næststærsta sem hægt er að keppa um hjá WBC en WBC er eitt af þremur stóru samböndunum í boxheiminum.

Valgerður fékk fyrst að vita af bardaganum á fimmtudaginn í síðustu viku. Hún heldur sér þó í góðu formi allan ársins hring en æfingarnar breyttust lítillega þegar bardaginn var kominn á.

„Þegar ég er ekki með bardaga tek ég góðar púðaæfingar þrisvar í viku, stuttar sprettæfingar tvisvar i viku og reyni svo að koma lyftingum inn í þetta svona tvisvar til þrisvar í viku. En eftir að bardaginn kom upp þá breytist þetta aðeins. Þetta er sérstakt þar sem ég fæ bara svona fimm góða æfingadaga. Ég hef sparrað fimm sinnum síðan ég fékk bardagann og tekið einhverjar 30 lotur og búin að fókusa á það. Svo tók ég eina hlaupaæfingu en hef annars bara verið að fínpússa, taka létt á pödsum og púðum,“ sagði Valgerður á blaðamannafundi á þriðjudaginn.

Eftir að bardaginn kom upp hefur Valgerður verið að æfa mikið með Kristínu Sif. „Ég hef verið að sparra við Kristínu Sif og á hún mikið hrós skilið með því að stökkva inn með 12 tíma fyrirvara í sparr. Hún var alveg tilbúin eftir þrusu góða frammistöðu á Íslandsmeistaramótinu þar sem hún stóð sig alveg þrusu vel og er alveg ótrúlega öflug. Bæði gott að vinna með henni og svo hæfileikarík og sterk. Mjög þakklát henni.“

Valgerður mætir norskri stelpu en vonir standa til að Katarina geti orðið stórt nafn í boxinu eins og Cecilia Brækhus. „Gauji [umboðsmaður Valgerðar] var búinn að nefna hana við mig í desember að hún væri sem sagt Evrópumeistari en ég kíkti ekkert á hana þar sem ég átti ekkert von á því að mæta henni. Var svona ekkert með það í huganum þannig. En svo er ég búin að kíkja á hana síðustu daga aðeins en ætla ekkert að hengja mig of mikið á það sem hún er að gera því það skiptir ekki máli. Ég á von að því að hún mæti dálítið crazy til leiks, verði ákveðin en það er allt í lagi, þá dansa ég bara í kringum hana.“

Líkamlegur undirbúningur er nokkuð hreinn og beinn fyrir bardagann en andlegur undirbúningur fyrir bardaga þessu tagi er gríðarlega mikilvægur. „Ég hugleiði mikið og það er stór partur af þessu. Ég þarf mikið að vinna með hausinn og vera með hann slakan, róleg og með fókus. Kolli [atvinnuboxari] er búinn að hjálpa mér með það í undirbúningnum.“

Þetta er langstærsti bardagi Valgerðar hingað til en þýðir það að tekjurnar séu umtalsvert meiri? „Já, núna er þetta í fyrsta sinn sem ég fæ svona jákvæðan samning. Þetta er búið að vera í frekar negatívum tölum hingað til þannig að ég er mjög þakklát, mjög sátt.“

Katarina er talin sigurstranglegri hjá veðbönkum enda með meiri reynslu og á heimavelli. Katarina undirbjó sig fyrir annan andstæðing í nokkrar vikur og er nú mikil pressa á henni að standa sig gegn talsvert óþekktari andstæðingi. „Ég held að bardaginn fari ekki eins og þau úti eiga von á. Ég er ekki mikið fyrir yfirlýsingar en ég veit alveg að ég er tilbúin. Alveg klárlega.“

Hægt verður að streyma bardagann í gegnum netið en einungis þeir með norskt kredit kort geta keypt aðgang að bardaganum. Þó er vert að benda á að Hnefaleikastöðin mun sýna bardagann beint í sinni aðstöðu.

Mynd: Snorri Björns.
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular