spot_img
Saturday, December 21, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaViðtal við Steinar Thors: "Þetta verður mín fyrsta reynsla í bardagaíþrótt erlendis...

Viðtal við Steinar Thors: “Þetta verður mín fyrsta reynsla í bardagaíþrótt erlendis og ég set markið hátt.”

555921_431459836936752_755909721_n
Mynd: Jón Viðar Arnþórsson

Næstkomandi fimmtudag heldur hópur boxara frá Mjölni/HR til Svíðþjóðar til að keppa á stóru alþjóðlegu boxmóti. Við fengum Steinar Thors í smá viðtal en hann er einn af þeim sem keppir þar.

Segðu okkur aðeins frá þessu móti, hvar er þetta og hvernig er keppnisfyrirkomulagið?

Þetta mót er haldið í Heby í Svíþjóð og er með stærri hnefaleikamótum sem haldin eru á Norðurlöndunum. Keppendur koma frá Svíþjóð, Noregi, Finnlandi, Íslandi og Englandi og eru þáttakendur um 200 talsins. Ég hef ekki áður tekið þátt í móti af þessari stærðargráðu og get því ekki alveg sagt nákvæmlega hvernig keppnisfyrirkomulagi er háttað en ég geri ráð fyrir því að settir eru upp 2-4 hringir og því kepptir nokkrir bardagar í einu svo þetta gangi smurt fyrir sig. Gera má ráð fyrir að keppendur gætu þurft að keppa 3-4 bardaga þessa helgi svo þetta verður gríðarleg keyrsla og mikið álag. Á svona mótum er vigtun á hverjum degi og stundum tvisvar á dag ef keppt er snemma dags og svo aftur að kvöldi til svo það er mikilvægt að vera nokkuð öruggur á vigtinni.

Hversu sterkt er þetta mót?

Þegar keppendur á hnefaleikamóti eru orðnir svona margir þá segir það mikið til um styrkleika þess. Þetta mót stendur ekki eitt og sér heldur er þetta mót haldið árlega og er vel þekkt meðal hnefaleikaiðkenda og áhugamanna í Svíþjóð og víðar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Íslendingar senda keppendur á mótið en fyrir nokkru síðan fóru Gunnar Þór Þórsson ásamt Gísla Rúnari Gunnarssyni og kepptu fyrir hönd Hnefaleikafélags Reykjavíkur og náðu þeir góðum árangri. Gunnar Þór sigraði sinn flokk og ef ég man rétt fékk hann aukaviðurkenningu fyrir frammistöðu sína á mótinu og Gísli komst í úrslit í sínum flokk en tapaði eftir hörkubardaga. Þetta er ágætis stimpill fyrir frammistöðu íslenskra hnefaleikakappa sem gaman væri að viðhalda þetta árið.

Hverjir aðrir fara út með þér?

Við erum 5 talsins sem keppum fyrir Íslands hönd þetta árið og ekki af verri endanum en keppendurnir hafa margir hverjir getið af sér gott orðspor innan hnefaleika sem og blandaðra bardagalista en þau eru Mustafa Mikael Jobi, Daníel Þór, Brynjólfur Ingvarsson, Sunna Rannveig Davíðsdóttir og svo ég.

Hvað hefuru boxað lengi og hvernig hefur árangurinn verið?

Ég byrjaði að stunda hnefaleika árið 2009 eftir að ég sá auglýsingu frá Hnefaleikafélagi Reykjavíkur sem innihélt einn frían prufutíma. Ég kolféll fyrir íþróttinni og hef stundað hana síðan. Ég er bara sáttur með árangur minn í keppnum en ég hef keppt 8 bardaga á þessu tímabili og tapað 3 af þeim. Ég hef þrisvar sinnum tekið þátt á Íslendsmeistaramóti og hef náð bronsi, silfri og svo gulli núna á síðasta ári. Fyrir 2 árum sleit ég krossband á vinstra hné og þurfti þar af leiðandi að taka mér heilt ár í pásu frá hnefaleikum en kom aftur til baka ársbyrjun 2013 og sem betur fer finn ég lítið sem ekkert fyrir hnénu í dag.

Hefuru áður farið erlendis að keppa?

Ég hef aldrei áður farið út til að keppa í hnefaleikum en hef samt áður farið erlendis í æfingaferð og keppnisferðalag til Svíþjóðar þegar ég æfði frjálsar íþróttir á sínum tíma. Þetta verður því mín fyrsta reynsla í bardagaíþrótt erlendis og set því markið hátt.

Hvernig undirbýrð þú þig fyrir svona boxmót?

Undirbúningurinn minn felst í þrekæfingum, sparræfingum og breyttu mataræði. Ég reyni að æfa tvisvar á dag fyrir mót og staka bardaga og skipti upp í tækniæfingar og þrekæfingar. Víkingaþrekið í Mjölni hefur reynst mér mjög vel til að ná upp styrk og þoli enda fjölbreyttar og krefjandi æfingar og sparræfingarnar nýti ég svo til að vinna í sérhæfða þolinu. Með breyttu mataræði reyni ég helst að sleppa pizzunni, brauðinu, lakkrísnum og súkkulaðinu sem er í miklu uppáhaldi hjá mér og er í raun mun erfiðara en hvaða þrekæfing sem er!

Að hverju stefniru að í framtíðinni í bardagaíþróttum?

Ég hef nú ekki sett mér nein stór markmið með hnefaleikaiðkun mína og því hef ég yfirleitt bara látið tímann leiða það í ljós hvaða tækifæri mér bjóðast. Ég er því mjög spenntur fyrir þessu móti núna næstu helgi enda mun það koma til með að veita mér einhverja smá hugmynd um hvar ég stend meðal jafningja á Norðurlöndum. Annars mun ég halda áfram að æfa hnefaleika í nánustu framtíð hjá Mjölni/HR og hugsa að ég láti það síðan í hendur þjálfara minna hvenær ég mun næst keppa og hvar, enda miklir fagmenn sem þar standa manni að baki. Í dag sé ég um þjálfun og kennslu í byrjendahópi í hnefaleikum hjá Mjölni en það er frábært að sjá hversu hratt áhuginn fyrir hnefaleikum hefur vaxið í gegnum tíðina og það er fátt skemmtilegra en að miðla reynslu og þekkingu til byrjenda og stuðla þannig að frekari vexti í hópi iðkenda.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular