spot_img
Monday, December 23, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaViktor: Einhverfan hjálpar mér í MMA

Viktor: Einhverfan hjálpar mér í MMA

Mynd: Ásgeir Marteins.

Viktor Gunnarsson keppir á HM í MMA í næstu viku. Viktor hefur æft bardagaíþróttir frá 10 ára aldri og hefur lengi dreymt um að berjast í MMA.

Viktor er tvítugur og mun keppa ásamt Mikael Aclipen í Jr. flokki (18-21 árs) á Heimsmeistaramótinu í MMA. Þar mun Viktor keppa í fjaðurvigt og má búast við harðri samkeppni til að komast á pall.

Viktor er búinn með einn MMA bardaga en hann þurfti að bíða lengi eftir sínum fyrsta bardaga. Þrisvar sinnum féll bardagi niður hjá honum vegna kórónuveirunnar eða vegna meiðsla andstæðings. Það var því mikilvæg stund fyrir Viktor þegar hann fékk loksins að berjast í október í Póllandi.

„Þetta var mjög mikilvægur bardagi fyrir mig en var kannski ekki alveg eins og ég bjóst við. Ég vildi virkilega vita hvernig ég myndi berjast undir svona aðstæðum – umkringdur fólki sem er að öskra á mig á sama tíma og ég er að deyja úr stressi og að hugsa um milljón hluti. Þetta var mjög mikilvægur bardagi fyrir mig til að vita að ég get verið þarna inni og haldið 100% fókus. Og ég er mjög sáttur með hvað ég lærði af þessum bardaga þó hann hafi ekki verið langur,“ segir Viktor en hann sigraði með hengingu í 1. lotu.

„Ég var líka mjög stressaður fyrir bardagann. Ég hef alltaf fundið fyrir stressi og það mun aldrei breytast. Hef bara lært að höndla það miklu betur, mun aldrei losna við það að vera kvíðinn eða hræddur fyrir bardaga. Það mun alltaf vera þar en ég hef bara lært að lifa með því og það er það sem gerir þetta sport svo skemmtilegt. Að vera með risa kvíða og stress en um leið og keppnin byrjar er allt farið.“

Viktor byrjaði í barnastarfi Mjölnis 10 ára gamall og hefur því æft brasilískt jiu-jitsu og síðar MMA í nokkur ár. Hann var kannski ekki sama „barnastjarna“ og Mikael sem vann hvert einasta mót frá unga aldri en með mikilli vinnu, dugnaði og eljusemi byrjuðu sigrarnir á mótum að koma.

„Pabbi minn kynnti mér fyrir sportinu þegar hann sýndi mér bardaga með Gunna gegn Damarques Johnson. Ég sá það og var ógeðslega heillaður því þetta var Íslendingur. Ég hafði aldrei séð einhvern Íslending gera svona hluti. Ég var búinn að prófa allt, ég var búinn að prófa að vera í körfubolta, fótbolta, handbolta, blaki, frjálsum íþróttum og bara hvað sem er en ekkert af því heillaði mig. Ekkert heillaði mig þar til ég fór að glíma, þar var ég bara í mínu elementi. Það var enginn annar í skólanum að elta þetta og ég er þakklátur að ég hef getað verið hérna í Mjölni í 10 ár og bætt mig, orðið betri og betri í hvert einasta sinn sem ég mæti á æfingu og lært svo margt.“

„Mjölnir er mitt annað heimili. Mér líður aldrei illa að fara þangað. Ef mér líður illa og fer að æfa þá líður mér betur þegar ég kem heim. Þetta er bara orðið lífið mitt að fara í Mjölni og skemmta mér eins mikið og ég get. Ég veit svo sem ekki hvers vegna, kannski var það bara glíman sjálf. Ég hafði aldrei séð svona áður. Síðan byrja ég að færa mig í MMA og það var bara eitthvað sem small hjá mér og ég gat fundið mig í þessari íþrótt. Þetta var staður þar sem ég gat fundið mig ólíkt öðrum íþróttum. Það er bara eitthvað mjög sérstakt við þetta sem ég elska að gera. Ég bara elska þessa íþrótt og elska að taka þátt í þessari íþrótt.“

Viktor er með ódæmigerða einhverfu en við fyrstu sýn mætti halda að það væru ekki margir á einhverfurófinu sem berjast í MMA. Viktor telur að einhverfan hjálpi sér í þeim mikla hraða sem fylgir alvöru bardaga.

„Þegar ég lít á suma einstaklinga í MMA eins og Israel Adesanya og Kevin Holland, mér finnst eins og þeir græði á að vera smá einhverfir, því ég er frekar viss um að báðir sé eitthvað á einhverfurófinu. Þegar þú hefur svona marga hluti í huga þegar maður er í MMA eða að glíma, þá kemur svona hlutur [eins og einhverfan] þér að góðu því maður getur hugsað á milljón kílómetra hraða og allt í einu getur maður tekið ákvarðanir mjög fljótt.“

„Mér finnst einhverfan hjálpa mér, alveg örugglega, finnst það geta alveg hjálpað mér. Ég hef svo sem aldrei vitað hvernig það er að vera ekki með einhverfu, svo ég get ekki sagt hvernig það er öðruvísi en hefur kannski hjálpað í MMA.“

Mynd: Ásgeir Marteins.

Samkeppnin á Heimsmeistaramótum IMMAF er gríðarlega sterkt og ljóst að þetta verður mikil þrautaganga fyrir þá sem komast alla leið.

„Þetta verður góð reynsla. Ég sé engan ókost við að fara þangað fyrir utan ef ég verð rotaður og videoið fær 20 milljón views á Youtube eða eitthvað, en annað en það þá er þetta bara win-win. Hvort sem ég vinn eða tapa þá verður þetta reynsla. Ég er að fara til Abu Dhabi á HM, það verða fullt af gæjum þarna sem vilja þetta ógeðslega mikið og ég vil sýna að ég sé betri og af hverju ég vil þetta ennþá meira en þeir vilja og af hverju ég get verið klárari en þeir.“

Hinn tvítugi Viktor er að taka sín fyrstu skref sem bardagamaður en fyrir nokkrum árum var hann bara hinn dæmigerði unglingsstrákur með lyklaborð. Hann lét ófáa bardagamenn heyra það og nýtti samfélagsmiðlana til að segja bardagamönnum nákvæmlega sína skoðun en flestir kunnu ekkert alltaf að meta hans álit.

„Ég hef verið blokkaður af Santiago Ponzinibbio, bæði á Twitter og Instagram, svo Jon Jones, Tyron Woodley, Ben Rothwell, Jose Aldo og það er slatti af þeim og örugglega fleiri sem ég er að gleyma. Ég var einu sinni massífur Conor aðdáandi og var þá blokkaður af Jose Aldo sem ég sé eftir. Ég fíla Jose Aldo miklu meira núna en Conor þannig að ég bað hann afsökunar í skilaboðum á Instagram. Hann seen-aði mig bara og það var fyrir ári síðan.“

„Núna þegar ég er sjálfur að berjast þá skil ég vel af hverju þeir voru að blokka mig. Ég var algjör skíthæll að drulla yfir menn. Annars er mér alveg skítsama hvað ég geri á samfélagsmiðlum en Ponzinibbio átti skilið alla drulluna samt.“

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular