spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaWar Machine flýr sjö handtökuskipanir eftir grófa líkamsárás

War Machine flýr sjö handtökuskipanir eftir grófa líkamsárás

War-Machine-Bellator-97-750x340-1379490807Sjö handtökuskipanir hafa verið gefnar út á hendur bardagamannsins War Machine vegna grófrar líkamsárásar gegn fyrrverandi kærustu hans, Christy Mack, og ónefndum einstaklingi. Árásin átti sér stað aðfaranótt síðasta föstudags í Las Vegas. War Machine, sem hét Jan Koppenhaver áður en hann breytti nafni sínu, var umsvifalaust sviptur samningi sínum við Bellator og er á flótta undan lögreglunni.

Mack lýsti árásinni á þennan hátt í tilkynningu sem hún gaf út á mánudag:

„Um tvöleytið á föstudagsmorgun kom Jon Koppenhaver óvænt heim til mín í Las Vegas, eftir að hafa hætt með mér í maí, flutt út úr húsinu mínu og aftur til San Diego. Þegar hann kom fann hann mig og aðra manneskju fullklædda og óvopnaða í húsinu. Án þess að segja orð byrjaði hann að berja vin minn og þegar hann hafði lokið sér af sendi hann vin minn í burtu og beindi athygli sinni að mér.“

Mack lýsir svo í smátriðum hvernig War Machine misþyrmdi henni áður en hún lýsir meiðslum sínum, en þau sjást líka á myndunum hér að neðan:

„Ég er með 18 brotin bein í kringum augun, nefið mitt er brotið á tveimur stöðum, það vantar í mig tennur og margar þeirra sem ég enn hef eru brotnar. Ég get ekki tuggið eða séð út um vinstra augað. Ég er þvoglumælt útaf bólgunni og vegna þess að mig vantar tennur. Ég er með brákað rifbein og mjög illa sprungna lifur eftir spark í síðuna. Ég er svo slösuð á fótleggnum að ég get ekki gengið óstudd. Ég er líka með mörg sár eftir hníf sem hann fann í eldhúsinu mínu. Hann þrýsti hnífnum að mér á nokkrum stöðum, svo sem í höndina mína, eyrað og höfuðið. Hann sagaði líka mikið af hárinu mínu af með þessum bitlausa hníf. Eftir nokkurn tíma brotnaði hnífurinn við skaftið og hann hélt áfram að hóta mér með blaðinu. Ég hélt að ég væri að fara að deyja. Hann hefur barið mig oft áður, en aldrei svona illa.“

Mack segir að þegar War Machine fór út úr herberginu til að róta í skúffum í eldhúsinu hafi hún talið að hann væri að leita að betri hníf til að enda líf hennar svo hún hafi hlaupið út um bakdyrnar og tekist að finna hjálp.

Bróðir hans kemur honum til varnar

War Machine sagði í tísti að hann hafi sjálfur þurft að berjast fyrir lífi sínu en að hann muni ekki fá sanngjarna málsmeðferð hjá yfirvöldum og því verði hann að flýja. Bróðir War Machine, Michael Koppenhaver, lýsir atburðum aðfaranætur föstudags á þennan hátt:

„Christy Mack og War Machine voru enn saman og sáust saman á Bellator viðburði fyrir nokkrum vikum síðan. Hann kom heim til hennar og kom að henni þar sem hún var að sofa hjá öðrum manni. Átök hófust milli War Machine og þessa manns og Christy greip hníf og War Machine barðist fyrir lífi sínu, eins og hann sagði á Twitter þegar þetta gerðist fyrst.“

Michael ítrekaði síðan að ástæðan fyrir flótta bróður hans væri sú að hann myndi fá sama dómara og síðast þegar hann fór í fangelsi og að hann væri viss um að fá ekki sanngjörn réttarhöld.

War Machine hefur tvisvar áður setið inni fyrir líkamsárás. Hann sagði frá þeirri reynslu í podcasti UFC-kynnisins Joe Rogan fyrir hálfu ári.

Þegar þetta er skrifað er War Machine enn á flótta undan lögreglunni. Nú hefur raunveruleikasjónvarpsstjarnan Duane „Dog“ Chapman, sem var í aðalhlutverki í þáttunum „Dog the Bounty Hunter“, blandað sér í málið. Hann er byrjaður að elta uppi War Machine með myndavélar í eftirdragi fyrir nýju sjónvarpsþáttaröðina sína.

War Machine, sem hefur unnið 14 bardaga en tapað 5 á ferli sínum í MMA, hefur lengi verið umdeildur einstaklingur. Hann átti skamman feril í UFC á árinum 2007-2008 eftir að hafa tekið þátt í sjöttu seríu The Ultimate Fighter, en missti samninginn eftir aðeins tvo bardaga vegna umdeildra ummæla um dauða UFC bardagamannsins Evan Tanner og fyrir að hafna bardaga. Síðan hefur hann setið inni tvisvar og átt stuttan feril sem klámmyndaleikari. Hann barðist ekki í þekktum bardagasamtökum aftur fyrr en árið 2013, þegar hann fékk samning við Bellator, þar sem hann hefur unnið tvisvar en tapað einu sinni.

Þess má geta að War Machine kallaði út Gunnar Nelson árið 2010. Gunnar hafði barist í BAMMA bardagasamtökunum en War Machine óskaði eftir því á Twitter að fá að berjast við Gunnar á BAMMA 4. Að sögn Haraldar Nelson, föður og umboðsmanns Gunnar, samþykktu þeir feðgar áskorunina og var þá boltinn hjá BAMMA. Ekkert varð úr bardaganum en Gunnar barðist á BAMMA 4 gegn Eugene Fadiora.

Það er deginum ljósara að War Machine á við mörg andleg vandamál að stríða og þarf á hjálp að halda. War Machine fær sennilega aldrei að koma nálægt MMA aftur og skal engan undra ef tapið gegn Ron Keslar í fyrra hafi verið hans síðasti bardagi.

mack

spot_img
spot_img
spot_img
Oddur Freyr Þorsteinsson
Oddur Freyr Þorsteinsson
Greinahöfundur á MMAFréttir.is
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular