Viðtalið við Yoel Romero eftir bardaga hans við Lyoto Machida í gær var afar umdeilt. Á bjagaðri ensku sinni virtist Romero tala gegn úrskurði hæstaréttar Bandaríkjanna um að leyfa samkynghneigðum að gifta sig í öllum ríkjum landsins.
Yoel ‘Soldier of God’ Romero kemur frá Kúbu og er spænskan hans fyrsta mál. Þrátt fyrir að vera með túlk sér til aðstoðar vildi hann tala beint við áhorfendur á bjagaðri ensku í gær. Á einum tímapunkti virtist sem hann væri að gagnrýna ákvörðun hæstaréttar Bandaríkjanna um að leyfa samkynhneigðum að gifta sig í landinu.
Romero hlaut umsvifalaust mikið last fyrir vikið á Twitter en á blaðamannafundinum eftir bardagann vildi hann leiðrétta þennan misskilning.
„Ég biðst afsökunar ef það var misskilningur. Ég er maður Guðs og Guð er ást. Tjáning mín er full af ást. Það sem ég var að reyna að segja í búrinu er að ég lifi fyrir ameríska drauminn. Guð gerði manninn frjálsan. Allir geta gert það sem þeir vilja. Ég myndi aldrei gagnrýna aðra. Fyrst horfi ég inn á við og reyni að vera betri manneskja og elska fólk,“ sagði Romero.
„Það sem ég var að gera var að þakka Bandaríkjunum fyrir að gefa mér ameríska drauminn. Það er ekki til betra land þar sem það er blessað af Guði,“ sagði hinn mjög svo trúaði Romero.
Yoel Romero kemur frá Kúbu en býr nú í Flórída í Bandaríkjunum. Í viðtalinu í búrinu eftir bardagann vildi hann að eigin sögn aðeins þakka fyrir þetta tækifæri sem hann hefur fengið.
Hér að neðan er búið að texta viðtal Romero. Það sem olli þessum misskilningi er þegar hann segir „not forget Jesus“ en hljómar eins og hann sé að segja „no for gay Jesus“.
Romero sigraði Lyoto Machida í þriðju lotu eftir rothögg. Þetta var stærsti sigur hans á ferlinum og leiðinlegt að viðtalið dragi athygli frá sigrinum hans fyrst þetta var allt einn stór misskilningur.