Sunday, May 19, 2024
HomeForsíða10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í október 2013

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í október 2013

Cain Velasquez

Í þessum pistli lítum við á hvaða spennandi bardagar eru á leiðinni í október. Við skoðum gróflega hvað er í húfi og spáum fyrir um niðurstöðuna. Það verður eðlilega lögð áhersla á UFC en minni sambönd verða alltaf höfð í huga þó svo að ekkert þeirra hafi komist á listann að þessu sinni. Stóra Bellator kvöldið verður t.d. ekki fyrr en í nóvember. Það má deila um hvaða bardagar eiga að komast á listann en það er hluti af ánægjunni. Byrjum þetta!

10. UFC Fight Night – 26. október, Jimi Manuwa vs. Ryan Jimmo (létt þungavigt)

Jimi Manuwa er ósigraður í 13 bardögum og hann hefur aldrei farið í þriðju lotu! Þeir sem voru í Nottingham í fyrra muna hvernig hann fór með Kyle Kingsbury áður en læknirinn stoppaði bardagann. Ryan Jimmo er hans erfiðasti andstæðingur til þessa og ætti að segja okkur hversu góður hann er í raun og veru. Jimmo stóð sig vel í stríði á móti James Te-Huna en tapaði á stigum. Í hans síðasta bardaga sigraði hann Igor Pokrajac sannfærandi.

Spá: Jimmo er með talsvert meiri reynslu en Manuwa. Hann hefur sigrað fleiri erfiða andstæðinga en Manuwa sem mun reynast mikilvægt í Manchester. Það má hinsvegar ekki gleyma því að Manuwa er á heimavelli sem getur hjálpað honum mikið. Báðir eru höggþungir og hættulegir. Ég held að Jimmo sigri á tæknilegu rothöggi en í raun er þetta 50/50 bardagi.

9.  UFC Fight Night – 9. október, Raphael Assunção vs. T.J. Dillashaw (bantamvigt)

Strákarnir í Alpha Male eru búnir að vera á rosalegri siglingu upp á síðkastið, í raun síðan Duane Ludwig tók við sem yfirþjálfari. Chad Mendes og Joseph Benevidez kláruðu báðir nýlega sína andstæðinga. Næstur er T.J. Dilleshaw sem er smá saman að breytast í lítið skrímsli. Raphael Assunção er án efa einn erfiðasti andstæðingur Dilleshaw til þessa. Hann hefur unnið fjóra bardaga í röð, er með svarta beltið í BJJ og er góður alls staðar með mikla reynslu á bakinu. Sigurvegarinn verður kominn ansi framarlega í röðina á eftir titlinum.

Spá: Þetta er mjög tvísýnn bardagi en ég held að Raphael Assunção verði of erfiður fyrir T.J. Býst við jöfnum bardaga en held að Assunção vinni þetta á stigum, sennilega á klofinni dómaraákvörðun.

8. UFC 166 – 19. október, Daniel Cormier vs. Roy Nelson (þungavigt)

Nelson er ekki bardaginn sem ég hefði valið fyrir Cormier en hann er nagli. Hann rotaði þrjá í röð áður en hann tapaði fyrir Miocic í sínum síðasta bardaga. Hann er góður glímumaður og BJJ svartbeltingur. Það er meira í húfi fyrir Cormier en hann gæti barist mjög fljótlega um titil ef hann vinnur, þó sennilega í léttþungavigt. Ég held að það búist enginn við að Nelson geti unnið, reyndar ekki ég heldur, en hver veit?

Spá: Cormier tekur þetta nokkuð örugglega. Hann er sterkari glímumaður en Nelson og mun sennilega notfæra sér það. Eina von Nelson er rothögg en Cormier er með sterka höku svo ég sé það ekki gerast.

7. UFC Fight Night – 26. október, Ross Pearson vs. Melvin Guillard (léttvigt)

Pearson og Guillard eru tveir af þeim bestu og höggþyngstu sem komið hafa úr The Ultimate Fighter þáttunum. Ferill þeirra beggja hefur farið upp og niður en Guillard er undir meiri pressu eftir að hafa tapað fjórum af síðustu sex bardögum. Pearson er á fínni siglingu en hvorugur er að nálgast titilinn í nánustu framtíð. Þessi bardagi á einfaldlega að vera skemmtilegur, ekkert að því.

Spá: Þetta ætti að verða flugeldasýning. Báðir vilja standa, báðir eru tæknilegir en Guillard er hraðari. Pearson hefur áður tapað fyrir tæknilegum „strikerum“ eins og Barboza og Swanson. Guillard rotar Pearson í annarri lotu.

6. UFC 166 – 19. október, Nate Marquardt vs. Hector Lombard (veltivigt)

Það er nokkuð magnað að þessi bardagi sé í veltivigt. Báðir voru í millivigt fyrir stuttu og eru risastórir fyrir veltivigtina. Báðir eru reynsluboltar, báðir eru að nálgast efri árin svo spurningin er hvor á meira eftir? Þetta er mikilvægur bardagi en sá sem tapar er hugsanlega búinn að vera sem „top contender“.

Spá: Lombard sigrar með rothöggi í fyrstu eða annarri lotu. Það má ekki vanmeta Marquart en hans bestu ár virðast vera að baki og Lombard er með stílinn til að klára hann. Marquart mun ekki ná honum niður og Lombard er með hraðar og þungar hendur.

5. UFC Fight Night – 9. október, Erick Silva vs. Dong Hyun Kim (veltivigt)

Silva og Kim eru tveir veltivigtarmenn á hraðri uppleið. Kim er með kæfandi glímustíl sem getur slökkt á flestum. Eina alvöru tapið hans er fyrir Carlos Condit. Silva lítur út eins og framtíðar meistari en hann er ennþá í mótun og alltaf að verða betri. Þetta er mikilvægur bardagi fyrir feril þessara tveggja og mun sigurvegarinn færist upp.

Spá: Silva sigrar á tæknilegu rothöggi seint í bardaganum. Silva sýndi á móti Fitch að hann lætur ekki stjórna sér á gólfinu. Hann mun slíta Kim af sér, þreyta hann og klára á stórkostlegan hátt líkt og Condit gerði hér um árið.

4. UFC 166 – 19. október, Gilbert Melendez vs. Diego Sanchez (léttvigt)

Fyrrverandi Strikeforce meistarinn Gilbert Melendez var nálægt því að vinna Ben Henderson en það vantaði herslumuninn upp á. Það verður gaman að sjá hann takast á við stóru nöfnin í UFC en Sanchez er fín mælistika á hvar menn standa í stóru deildinni. Sanchez mun sennilega aldrei berjast aftur um titil en Melendez þarf að mínu mati bara að vinna þennan og einn bardaga í viðbót til að fá annað tækifæri á titlinum.

Spá: Sanchez mun gera bardagann skemmtilegan en Melendez er talsvert betri. Sennilega fer þetta þrjár lotur en Melendez ætti að vera öruggur sigurvegari.

3. UFC Fight Night – 26. október, Lyoto Machida vs. Mark Muñoz (millivigt)

Michael Bisping átti að berjast við Muñoz þetta kvöld en meiddist. UFC vélin hrökk hinsvegar í gang og náði í óvæntan en áhugaverðan andstæðing fyrir Muñoz (og Tim Kennedy berst við Rafael Natal í staðinn). Lyoto Machida hefur barist í létt þungavigtardeild UFC síðan árið 2007 en þessi bardagi fer fram í millivigt. Spurningin verður því, hvernig mun Machida standa sig í nýjum þyngarflokki og verður hann í vandræðum með að létta sig?

Spá: Mark Muñoz leit mjög vel út í sínum síðasta bardaga á móti Tim Boetsch og virðist endurnærður eftir mjög slæman bardaga á móti Chris Weidman. Lyoto Machida er hinsvegar erfiður andstæðingur fyrir alla. Hann er hraður, höggþungur, góður glímumaður og með svarta beltið í jiu-jitsu og karate. Þetta er mun verri bardagi fyrir Muñoz en Bisping. Machida tekur þetta, kannski á rothöggi.

2. UFC Fight Night – 9. október, Demian Maia vs. Jake Shields (veltivigt)

Maia og Shields hafa báðir barist um titil í UFC og tapað. Maia verður að teljast nær því að komast aftur á toppinn og hann hefur litið vel út síðan hann fór niður úr millivigt. Báðir eru takmarkaðir standandi en stóla á glímu og BJJ. Sá sem vinnur þarf því að stjórna hinum sem er ekkert grín.

Spá: Maia er einn besti jiu-jitsu glímukappi í heimi, margfaldur heimsmeistari. Í stuttu máli, Shields er góður en Maia er betri. Það er áhugavert að þessi bardagi er 5 lotur en úthald mun skipta miklu máli. Ég spái því að Maia klári Shields með „rear naked choke“ í síðustu lotunni en það er ekki ólíklegt að þetta fari allar fimm loturnar.

1. UFC 166 – 19. október, Cain Velasquez vs. Junior dos Santos 3 (þungavigt)

Það liggur enginn vafi á því að Cain og JDS eru bestu þungavigtararnir í bransanum. Þessi þriðji bardagi ætti að skera úr um hver hefur vinninginn. Sá sem tapar verður í erfiðri stöðu með tvö töp á móti hinum og gæti verið lengi að vinna sig upp. Sjaldan hefur meira verið í húfi.

Spá: Velasquez sigrar á stigum líkt og í öðrum bardaganum. Santos á alltaf til þessa þungu hægri hendi en Velasquez er búinn að læra á hann.

 

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular