spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í febrúar 2017

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í febrúar 2017

Janúar var frekar slakur mánuður fyrir MMA og febrúar er ekkert mikið skárri. Það verða þrjú UFC kvöld og tvö Bellator kvöld. Það er ekki mikið um mikilvæga bardaga en við náðum að skrapa saman 10 bardögum sem er þess virði að kíkja á.

10. Bellator 172, 18. febrúar – Fedor Emelianenko gegn Matt Mitrione (þungavigt)

Síðasti keisarinn, sjálfur Fedor Emelianenko, mun berjast í febrúar í sitt fyrsta skipti í Bellator. Fedor á ekki mikið eftir en hann hefur ennþá eitthvað aðdráttarafl. Andstæðingurinn er langt frá því að vera auðveldur. Matt Mitrione er risastór, höggþungur og léttur á fæti en hakan hans er ekki endilega sú öflugasta svo Fedor gæti mögulega unnið nái hann inn réttu bombunni strax í upphafi.

Spá: Þetta gæti orðið fjörugt í nokkrar mínútur en svo verður þetta ljótt. Mitrione sigrar á tæknilegu rothöggi í annarri lotu.

9. UFC Fight Night 104, 4. febrúar – Jéssica Andrade gegn Angela Hill (strávigt kvenna)

Jéssica Andrade er litli bolabíturinn í strávigt kvenna. Hún er búinn að líka hrikalega vel út undanfarið og er mögulega mesta ógnin við valdatíð Joanna Jedrzejczyk. Hér berst hún við Angelu Hill sem var rekin úr UFC eftir tvö töp árið 2015, reyndar gegn mjög góðum andstæðingum. Í millitíðinni hefur Hill sigrað fjóra andstæðinga í Invicta, nælt sér í beltið þar og unnið sér inn annað tækifæri í UFC.

Spá: Andrada valtar yfir Hill, sigrar með höggum í gólfinu í þriðju lotu.

8. Bellator 172, 18. febrúar – Josh Thomson gegn Patricky Freire (léttvigt)

Hér er á ferðinni nokkuð flottur bardagi í léttvigt. Patricky ‘Pitbull’ Freire er einn af þessum rótgrónu Bellator bardagamönnum sem hefði án efa getað átt góðan feril í UFC. Josh Thomson er búinn að tryggja sér tvo afgerandi sigra í Bellator gegn verri andstæðingum en nú verður látið reyna á hann. Spurningin er, hvað á hann eftir orðinn 38 ára gamall?

Spá: Það er ekki ólíklegt að þessi fari allar þrjár loturnar. ‘The Punk’ Thomson sigrar á stigum.

7. UFC 208, 11. febrúar – Ronaldo Souza gegn Tim Boetsch (millivigt)

Ronaldo ‘Jacare’ Souza fær hér bardaga til að halda sér heitum á meðan hann bíður eftir sínu tækifæri gegn meistaranum í millivigt. Líklega fær Yoel Romero bardaga gegn Michael Bisping og Souza verður svo næstur. Það er klárt mál að Souza ætti að vinna Tim Boetsch nokkuð auðveldlega en svona bardagar eru alltaf hættulegir, sértaklega ef um vanmat er að ræða.

Spá: Souza afgreiðir Boetsch hratt og örugglega með uppgjafartaki í fyrstu lotu.

6. UFC 208, 11. febrúar – Dustin Poirier gegn Jim Miller (léttvigt)

Þessi getur ekki klikkað. Allir Jim Miller bardagar eru skylduáhorf og hann fær oftar en ekki skemmtilega andstæðinga. Demanturinn Dustin Poirier var búinn að sigra fjóra andstæðinga í röð áður en hann mætti Michael Johnson sem rotaði hann í fyrstu lotu. Nú þarf hann að vinna sig upp aftur og byrjar á mjög erfiðu verkefni gegn Miller.

Spá: Miller er alltaf erfiður en Poirier mun finna leið til að sigra á stigum.

5. UFC 208, 11. febrúar – Anderson Silva gegn Derek Brunson (millivigt)

„Is normal“. Anderson Silva er mættur aftur til leiks eftir slaka frammistöðu gegn Daniel Cormier á UFC 200. Reyndar hefur Silva ekki unnið bardaga síðan árið 2012 (gegn Stephan Bonnar). Brunson var hins vegar á mikilli siglingu áður en hann mætti Robert Whitaker í hans síðasta bardaga. Brunson barðist í raun eins og vitleysingur og borgaði fyrir það með slæmu tapi. Nú fær hann tækifæri gegn stóru nafni til að vekja á sér athygli og klifra upp styrkleikalistann.

Spá: Brunson virðist fullkominn anstæðingur fyrir Silva til að útboxa. Anderson Silva gerir það og sigrar á stigum.

4. UFC Fight Night 105, 19. febrúar – Derrick Lewis gegn Travis Browne (þungavigt)

Líkt og Francis Ngannou fær Derrick ‘The Black Beast’ Lewis hér tækifæri gegn stóru nafni í þungavigt. Travis Browne hefur ekki átt sjö dagana sæla upp á síðkastið. Hann er búinn að tapa þremur af síðustu fjórum bardögum, þó gegn mjög góðum andstæðingum, en á meðan hefur Lewis klifrað upp metorðastigann með fimm sigrum í röð. Þessir kappar mætast því hér á krossgötum.

Spá: Browne hefur virkað stífur og hreinlega lélegur undanfarið. Lewis mun því næla sér í sigurinn með rothöggi í þriðju lotu.

3. UFC Fight Night 104, 4. febrúar – Dennis Bermudez gegn Chan Sung Jung (fjaðurvigt)

‘Korean Zombie’ snýr loksins aftur eftir rúma tveggja ára fjarveru. Síðast þegar við sáum hann var José Aldo að fara illa með hann í Brasilíu árið 2013 en nú mætir hann Dennis Bermudez sem hefur barist sjö sinnum á sama tímabili. Bermudez hefur unnið tvo bardaga í röð og litið mjög vel út.

Spá: Þetta verður erfitt fyrir Jung. Bermudez mun glíma hann sundur og saman og klára með uppgjafartaki í fjórðu lotu.

2. UFC Fight Night 105, 19. febrúar – Johny Hendricks gegn Hector Lombard (millivigt)

Þessir tveir eru ekki lengur upp á sitt besta en þessi bardagi er engu að síður mjög spennandi. Báðir eru höggþungir glímumenn, þó með mjög ólíka stíla. Það verður gaman að sjá hvernig Hendrick gengur að ná Lombard í gólfið en hann virðist oft á tíðum vera með gorma í löppunum. Þessi bardagi ætti að svara mörgum spurningum um hversu mikið þessir kappar eiga eftir.

Spá: Lombard verst fellum og rotar Hendricks í fyrstu lotu.

1. UFC 208, 11. febrúar – Holly Holm gegn Germaine de Randamie (fjaðurvigt kvenna)

Þessi bardagi er áhugaverður fyrst og fremst út frá sögulegu samhengi. Þetta er fyrsti titilbardaginn í fjaðurvigt kvenna svo önnur þessara kvenna fær þann heiður að verða fyrsti meistarinn í nýjum þyngdarflokki. Fyrir utan það er þetta flottur bardagi á milli margfalds meistara í hnefaleikum og margfalds meistara í Muay Thai. Höggin munu því flæða en hver mun grípa beltið?

Spá: Holly Holm er með meiri reynslu í stórum bardögum. Hún sigrar á tæknilegu rothöggi í fjórðu lotu og skrifar nafn sitt í sögubækurnar.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular