Jólin eru að koma og MMA aðdáendur fá sitt lítið af hverju undir tréð. Stærsti pakkinn er UFC 245 í Las Vegas en það er ýmislegt annað í boði líka.
10. Bellator 238, 29. desember – Fedor Emelianenko gegn Quinton ‘Rampage’ Jackson (þungavigt)
Nei, árið er ekki 2003 og þetta er ekki Pride. Fedor og Quinton ‘Rampage’ Jackson eru ekki beint tveir af þeim bestu í dag en það er samt eitthvað heillandi við þetta. Útkoman verður sennilega ekkert frábær en bardagastílar þessara manna ættu í það minnsta að tryggja standandi bardaga með töluverðum líkum á rothöggi. Fyrir okkur gamlingjana er þetta nostalgía, fyrir þá ungu er þetta freak show. Látum vaða.
Spá: Rampage stöðvar Fedor með höggum í þriðju lotu eftir subbulegt stríð.
9. UFC on ESPN 7, 7. desember – Alistair Overeem gegn Jairzinho Rozenstruik (þungavigt)
Jairzinho Rozenstruik er nýjasta þungavigtarvonin. Hann er hrikalega höggþungur en er hann nógu góður fyrir þá bestu? Þetta er stórt og mikið próf enda er Overeem einn sá reyndasti í bransanum.
Spá: Þetta verður svolítið erfitt en Rozenstruik rotar Overeem í annarri lotu.
8. UFC 245, 14. desember – Matt Brown gegn Ben Saunders (veltivigt)
Þessir gömlu hundar ættu að gleðja þá sem hafa fylgst lengi með íþróttinni.
Saunders og Brown komu báðir í UFC í gegnum TUF seríurnar fyrir um það bil 70 árum. Þeir eru alltaf skemmtilegir og gefa sig alla í þetta. Gamli skólinn lifir.
Spá: Saunders nær uppgjafartaki í þriðju lotu og sigrar.
7. UFC 245, 14. desember – Geoff Neal gegn Mike Perry (veltivigt)
Geoff Neil er einn sá efnilegast í veltivigt um þessar mundir. Hann er búinn að vinna sína fyrstu fjóra bardaga í UFC og fær nú sjálfan ‘Platinum’ Mike Perry. Perry er höggþungur og erfiður en hefur þó verið að vinna og tapa til skiptis. Hann er fyrst og fremst geggjaður persónuleiki og skemmtilegur á að horfa. Þetta verður gott próf fyrir Neil.
Spá: Neil tekur þetta á stigum í skemmtilegum bardaga.
6. UFC 245, 14. desember – Petr Yan gegn Urijah Faber (bantamvigt)
Endurkoma Urijah Faber kom mörgum á óvart í júlí en þar sigraði hann góðan og töluvert yngri andstæðing nokkuð auðveldlega. Nú er hann hins vegar kominn í djúpu laugina og spurning er hvort hann sé ekki að ofmetnast aðeins. Yan er grjótharður og eitt besta efnið í MMA um þessar mundir. Þessi bardagi er risastórt tækifæri fyrir hann á stóru sviði.
Spá: Yan er einfaldlega betri, hann sigrar á stigum.
5. UFC Fight Night 165, 21. desember – Volkan Oezdemir gegn Aleksandar Rakić (léttþungavigt)
Þetta er hrikalega spennandi bardagi í þunnum þyngdarflokki. Rakić er hluti af nýju kynslóðinni en Oezdemir er ekki beint gamall (þrítugur). Báðir geta slegið eins og asni getur sparkað og það verður að teljast ólíklegt að þetta fari þrjár lotur.
Spá: Rakić heldur áfram sinni sigurgöngu, rothögg í fyrstu lotu.
4. UFC 245, 14. desember – Amanda Nunes gegn Germaine de Randamie (bantamvigt kvenna)
Þessar stöllur mættust fyrst árið 2013 en þá rotaði Nunes þá hollensku í fyrstu lotu, þ.e. TKO stoppað af dómara í gólfinu. Germaine de
Randamie er sennilega betri standandi en Nunes en hún verður að halda þessu standandi til að vinna.
Spá: Nunes nær fellunni snemma og klárar aftur með höggum í gólfinu í fyrstu lotu.
3. UFC 245, 14. desember – Marlon Moraes gegn José Aldo (bantamvigt)
Hér kemur trylltur bardagi í bantamvigt. José Aldo léttir sig um 10 pund og ræðst beint á erfiðasta gæjann í flokknum, þ.e. fyrir utan meistarann kannski. Moraes veitti Henry Cejudo góða keppni síðast og þarf nú að halda
stöðunni gegn fyrrverandi meistara í efri þyngdarflokki. Báðir eru hraðir og
skemmtilegir og útkoman getur ekki klikkað.
Spá: Moraes verður of stór biti fyrir Aldo að kyngja, Moraes sigrar með TKO í annarri.
2. UFC 245, 14. desember – Max Holloway gegn Alexander Volkanovski (fjaðurvigt)
Það þekkja allir Max Holloway en hver er þessi Ástrali sem enginn er að tala um? Alexander Volkanovski hefur unnið alla sína sjö bardaga í
UFC, þar með talið rothögg gegn Chad Mendes og sigraði svo José Aldo sannfærandi í maí síðastliðnum. Hann er góður alls staðar og gæti orðið meistaranum mjög erfiður. Holloway tapaði illa fyrir Poirier í léttvigt en hefur verið óstöðvandi í fjaðurvigt undanfarin ár. Þrátt fyrir marga bardaga og eitthvað slit er Holloway ennþá aðeins 27 ára gamall og ætti að vera ferskur í nokkur ár í viðbót.
Spá: Holloway siglir þessu heim í erfiðum bardaga, sigur á stigum.
1. UFC 245, 14. desember – Kamaru Usman gegn Colby Covington (veltivigt)
Loksins fáum við úr þessu skorið. Það hefur verið talað um þennan bardaga í allt of langan tíma og þessi endalausa saga um bráðabirgðarbeltið sem Covington vann í júní í fyrra er löngu orðin þreytt. Allir vilja sjá Colby laminn en er Usman maðurinn í það? Báðir þessir kappar eru sterkir glímumenn svo bardaginn gæti endað standandi þar sem Colby virðist sterkari í ljósi t.d. Robbie Lawler bardagans. Usman er hins vegar stærri og mögulega sterkari og fór nokkuð létt með Tyron Woodley í mars.
Spá: Usman pressar Colby upp við búrið og sigrar á stigum í bardaga sem veldur vonbrigðum.