Það er mikið um að vera í júní enda UFC kvöld allar helgar mánaðarins. Það má segja að það sé magn umfram gæði í þessum mánuði en leynast gollmolar hér og þar. Einn bardagi ber af í gæðum en hann vermir að sjálfsögðu fyrsta sæti listans.
Bellator er með stórt „pay per view“ kvöld þar sem Chael Sonnen berst við Wanderlei Silva og Fedor Emelianenko mætir Matt Mitrione, þ.e. ef enginn meiðist. Auk þess verða tveir titilbardagar þetta Bellator kvöld.
10. UFC Fight Night 111, 17. júní – Holly Holm gegn Bethe Correia (bantamvigt kvenna)
Eftir nokkra erfiða bardaga og þrjú töp í röð fær Holly Holm hér bardaga sem hún ætti að vinna nokkuð auðveldlega. Bardaginn er áhugaverður fyrst og fremst til að sjá hvernig Holm mun líta út eftir töpin í bardaga sem hún hreinlega má ekki tapa.
Spá: Holm rotar Correia í þriðju lotu með höfuðsparki.
9. Bellator 180, 24. júní – Phil Davis gegn Ryan Bader (léttþungavigt)
Það er eitthvað skrítið við að sjá þessa tvo berjast í Bellator en þeir mættust í UFC árið 2015. Bader sigraði eftir klofinn dómaraúrskurð svo spurningin er hvor hefur bætt sig meira og lært á veikleika hinna. Báðir eru klárlega á meðal þeirra tíu bestu í heiminum og báðir eru sterkir glímumenn. Kannski verður þetta leiðinlegt hnoð líkt og fyrri bardaginn en kannski tekur annar af skarið og nælir sér í sannfærandi sigur.
Spá: Phil Davis sigrar að þessu sinni á stigum.
8. UFC Fight Night 111, 17. júní – Dong Hyun Kim gegn Colby Covington (veltivigt)
Því miður fengum við ekki að sjá Dong Hyun Kim gegn Gunnari Nelson en þess í stað fær bandaríski glímumaðurinn Colby Covington tækifærið. Bardaginn er stór áhætta fyrir Kim þar sem hann er nr. 7 á styrkleikalista UFC en Covington er ekki á lista. Covington er hins vegar búinn að sigra þrjá andstæðinga í röð og er banhungraður.
Spá: Kim ætti að sigra sannfærandi, segjum „rear naked choke“, önnur lota.
7. UFC Fight Night 111, 17. júní – Tarec Saffiedine gegn Rafael dos Anjos (veltivigt)
Rafael dos Anjos hefur innrás sína í veltivigt gegn fyrrverandi Strikeforce meistaranum Tarec Saffiedine. Þetta er mikilvægur bardagi fyrir báða menn þar sem tap væri mjög slæmt ætli þeir að klifra styrkleikalistann. Báðir eru mjög góðir sparkboxarar en dos Anjos ætti að vera talsvert betri glímumaður.
Spá: Tökum sénsinn og spáum hinum vanmetna Saffiedine sigri á stigum.
6. UFC 212, 3. júní – Raphael Assunção gegn Marlon Moraes (bantamvigt)
Sumir hafa beðið lengi eftir komu Marlon Moraes í UFC. Moraes hefur verið WSOF meistarinn síðan 2014 og varði það belti fimm sinnum. Nú mætir hann andstæðingi sem mun segja okkur nákvæmlega hversu góður hann er. Assunção hefur unnið átta af síðustu níu bardögum sínum þar sem eina tapið var gegn T.J. Dillashaw í fyrra. Þetta verður virkilega áhugaverður bardagi.
Spá: Moraes stimplar sig inn með sigri á stigum.
5. Bellator 180, 24. júní – Douglas Lima gegn Lorenz Larkin (veltivigt)
Lorenz Larkin fer beint úr UFC í spennandi titilbardaga í Bellator. Hann mætir Douglas Lima sem endurheimti nýlega beltið í veltivigt af Andrey Koreshkov. Lima er ungur, hungraður og reynslumikill bardagakappi svo þetta ætti að verða hörku viðureign. Það sem gerir þennan bardaga enn meira spennandi er að sigurvegarinn mætir Rory MacDonald.
Spá: Larkin sigrar á stigum í jöfnum bardaga.
4. UFC Fight Night 110, 11. júní – Derrick Lewis gegn Mark Hunt (þungavigt)
Það má segja að stóra stundin sé runnin upp hjá Derrick „The Black Beast“ Lewis. Hann hefur sigrað sex bardaga í röð og þar með nokkur stór nöfn en nú er hann hársbreidd frá því að komast í umræðuna um titilbardaga. Til þess að komast þangað þarf hann að sigra sjálfan Mark Hunt sem gæti orðið þrautinni þyngri.
Spá: Það er ekki svo auðvelt að rota Hunt og hann er sennilega liprari á fótum en Lewis. Þetta er fimm lotu bardagi en Hunt sigrar á tæknilegu rothöggi í þriðju lotu.
3. UFC Fight Night 112, 25. júní – Michael Chiesa gegn Kevin Lee (léttvigt)
Það er pínu fyndið hvað öllum var skítsama um þennan bardaga áður en þessir tveir reyndu að rífast í beinni útsendingu. Rifrildið var vandræðilega lélegt og skiptust þeir örlítið á höggum á blaðamannafundinum en áhuginn á bardaganum jókst engu að síður (það má draga einhvern lærdóm af þessu). Bardaginn sem slíkur er mjög flottur. Báðir eru ungir og hungraðir og sterkir glímumenn. Chiesa er aðeins eldri og reyndari og er skráður ofar á styrkleikalista UFC en Lee hefur klárað þrjá andstæðinga í röð og langar að verða stjarna. Þetta ætti að verða flottur bardagi, bara ekki minnast á móður Chiesa.
Spá: Betri glímumaðurinn ætti að vinna. Segjum að það verði Chiesa sem sigrar í annarri lotu með „d´arce choke“.
2. UFC 212, 3. júní – Cláudia Gadelha gegn Karolina Kowalkiewicz (strávigt kvenna)
Þetta er heillandi bardagi á milli tveggja frábærra bardagakvenna í strávigt sem báðar hafa tapað fyrir Joanna Champion. Fyrir utan þau töp hafa þær sigrað alla sína andstæðinga og eru skráðar nr. 1 og 2 á styrkleikalista UFC. Á pappír er þetta því nokkuð jafn bardagi.
Spá: Gadelha notar glímuna og nælir sér í mikilvægan sigur, „ground and pound“ í þriðju lotu.
1. UFC 212, 3. júní – José Aldo gegn Max Holloway (fjaðurvigt)
Stórskostlegur bardagi svo það er nánast öruggt að einhver meiðist. Max Holloway er búinn að vinna tíu bardaga í röð, eða alla síðan hann tapaði fyrir Conor McGregor árið 2013. Síðustu fimm sigrar voru gegn Cub Swanson, Charles Oliveira, Jeremy Stephens, Ricardo Lamas og Anthony Pettis. Nokkuð magnað. Ferill Aldo er ekki síður flottur fyrir utan tap gegn sama manni árið 2015. Þessi bardagi er mikilvægur, stílarnir eru spennandi og hann sameinar alvöru belti og plat belti. Ekki mikið til að kvarta yfir.
Spá: Holloway er frábær en Aldo sparkar undan honum löppunum, kemur sér undan stóru höggunum og sigrar á stigum.