Thursday, April 25, 2024
HomeErlent10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í nóvember 2018

10 áhugaverðustu MMA bardagarnir í nóvember 2018

Nú styttist í jólin en nóvember mánuður hefur upp á ýmislegt gott að bjóða til að stytta biðina eftir jólasteikinni. Miklar breytingar einkenndu mánuðinn en UFC á hrós skilið fyrir að bjarga bardögum þegar menn voru að meiðast.

10. UFC Fight Night 140, 17. nóvember – Ricardo Lamas gegn Darren Elkins (fjaðurvigt)

Þessir tveir hafa farið í gegnum rússíbanareið í UFC. Erfið töp, frábærir sigrar og allt þar á milli. Lamas hefur almennt verið talinn betri bardagamaður en nú eru þeir hlið við hlið á styrkleikalista UFC (nr. 12 og 13). Þessi bardagi virðist snúast um að halda ferlinum á lífi og halda stöðu sinni í fjaðurvigtinni.

Spá: Lamas sigrar á stigum.

9. UFC 230, 3. nóvember – Jared Cannonier gegn David Branch (millivigt)

Í öllu ruglinu í kringum UFC 230 var David Branch einn af þeim sem tapaði mestu. Hann missti bardaga gegn Ronaldo „Jacare“ Souza og fær þess í stað lítið þekktan en hættulegan andstæðing. Jared Cannonier hefur litið mjög vel út á köflum en gengið illa gegn sterkum andstæðingum. Hann hefur nú tapað þremur af síðustu fjórum bardögum og verður hreinlega að sigra. Fyrir Cannonier er þetta risavaxið tækifæri og kannski hans síðasta.

Spá: Branch notar glímuna og sigrar örugglega á stigum.

8. UFC Fight Night 139, 10. nóvember – Yair Rodriguez gegn Chan Sung Jung (fjarðurvigt)

Fyrir stuttu leit út fyrir að Yair Rodriguez væri á leiðinni út úr UFC. Hann er sem betur fer hér enn og bjargar þessum aðalbardaga á síðustu stundu eftir að Frankie Edgar meiddist og þurfti að hætta við. Þessir tveir stílar ættu að gulltryggja fjöruga flugeldasýningu og kannski einn besta bardaga ársins. Báðir menn eru að koma til baka eftir álíka langa fjarveru (um 1,5 ár) svo ryð gæti haft áhrif á annan eða báða.

Spá: Rodriguez er tæknilegri og ætti að sigra, segjum rothögg í þriðju lotu.

7. UFC Fight Night 139, 10. nóvember – Donald Cerrone gegn Mike Perry (veltivigt)

Sumir bardagar þurfa ekki að hafa neina sérstaka þýðingu, þeir eiga bara að vera skemmtilegir. Þessi er klárlega einn af þeim. Þessir kappar eru af sitt hvorri kynslóðinni en þeir eiga það sameiginlegt að vera litríkir persónuleikar sem fólk vill sjá en hvorugur er líklegur til að verða meistari. Spurningin hér er hversu mikið á Cerrone eftir og hversu góður er Perry í raun?

Spá: Cerrone ætti að vera tæknilega betri á flestan hátt. Ef allt gengur upp kemur Cerrone inn betri höggum og klárar bardagann með uppgjafartaki í 2. lotu og heldur stöðu sinni í veltivigtinni.

6. UFC 230, 3. nóvember – Derek Brunson gegn Israel Adesanya (millivigt)

Þessi bardagi er falinn gullmoli á UFC 230 kvöldinu. Israel Adesanya gæti verið næsta stóra stjarnan í UFC en margt í fari hans minnir á Jon Jones. Frammistaða hans gegn Brad Tavaras var rosaleg og ég get ekki beðið eftir að sjá hann aftur. Derek Brunson er fullkomið próf fyrir hann á þessum tímapunkti. Brunson virðist annað hvort rota eða vera rotaður. Stíllinn hans er villtur og árásargjarn sem gæti verið vandræði gegn snillingi eins og Adesanya.

Spá: Adesanya rotar Brunson í fyrstu lotu.

5. UFC Fight Night 141, 25. nóvember – Francis Ngannou gegn Curtis Blaydes (þungavigt)

UFC getur verið harður húsbóndi. Eftir slæmt tap gegn Stipe Miocic virtist Francis Ngannou í hálfgerðu losti í hans síðasta bardaga gegn Derrick Lewis. Hann gerði eiginlega ekki neitt. Sennilega hefði Ngannou haft gott af því að fá auðveldari andstæðing og byggja þannig upp sjálfstraustið aftur. Þess í stað fær hann einn erfiðasta bardaga sem hann hefði mögulega getað fengið. Curtis Blaydes tapaði fyrir Ngannou árið 2016 en þá var það læknir sem stöðvaði bardagann eftir slæma bólgu. Blaydes hefur ekki tapað síðan og hefur litið frábærlega út. Það er eins gott að Ngannou verði kominn yfir þessa sálfræðilegu hindrun sem var að trufla hann í júlí.

Spá: Blaydes sigrar að þessu sinni, TKO í 4. lotu.

4. UFC Fight Night 140, 17. nóvember – Neil Magny gegn Santiago Ponzinibbio (veltivigt)

Ponzi potari snýr aftur í aðalbardaga í sínu heimalandi í nóvember. Gunnar Nelson vildi fá þennan bardaga en að lokum var það Neil Magny sem hreppti hnossið. Þessir tveir eru númer 8 og 10 á styrkleikalista UFC og sigur gæti hæglega skotið þeim upp í topp 5. Það er því mikið í húfi og stílarnir auk þess þannig að bardaginn ætti að verða fjörugur og skemmtilegur.

Spá: Það má ekki vanmeta Magny en Ponzinn verður að teljast sigurstranglegri, sérstaklega á heimavelli. Ponzinibbio sigrar á tæknilegu rothöggi í 2. lotu.

3. TUF Finale 28, 30. nóvember – Rafael dos Anjos gegn Kamaru Usman (veltivigt)

Kamaru Usman er á hraðri uppleið, sérstaklega eftir sigur gegn Demian Maia í maí á þessu ári. Hér fær hann fyrrverandi meistara og annað stórt nafn sem gæti tryggt honum titilbardaga ef allt gengur upp. Á sama tíma er Rafael dos Anjos hálfpartinn að berjast fyrir stöðu sinni í veltivigt. RDA tapaði frekar illa fyrir Colby Covington í júní og þarf á góðum sigri að halda. Tilfinningin er sú að þetta sé hluti af kynslóðaskiptum sem eru að eiga sér stað í veltivigt. Þetta er eðlilegur gangur lífsins en spurningin er hvort tími RDA sé liðinn?

Spá: Usman gerir það sem Covington gerði og sigrar á stigum.

2. UFC 230, 3. nóvember – Ronaldo Souza gegn Chris Weidman (millivigt)

Þetta er bardagi sem mig hefur alltaf langað að sjá. Stílarnir eru mjög áhugaverðir, heimsmeistari í Brasilísku Jiu-Jitsu gegn frábærum „wrestler“. Best hefði verið ef þeir hefðu barist fyrir nokkrum árum og enn betra hefði verið ef bardaginn hefði ekki verið settur saman á síðustu stundu en þetta er staðan. Jacare Souza hefur virkað stirðari undanfarin ár en hann getur ennþá slegið og er algjört skrímsli á gólfinu. Fari bardaginn í gólfið verður mjög gaman að sjá hver hefur betur. Weidman kemst langt á hjartanu og hann er í raun góður á öllum vígstöðum. Sigurvegarinn hér verður sennilega gjaldgengur í titilbardaga á næstunni.

Spá: Þessi bardagi fer sennilega fram og til baka en ég held að Weidman hafi betur á stigum.

1. UFC 230, 3. nóvember – Daniel Cormier gegn Derrick Lewis (þungavigt)

Titilbardagi í þungavigt er alltaf tilefni til að fagna. Þessi er í skrítnari kantinum að því leyti að hann var settur saman á síðustu stundu til að bjarga UFC 230 kvöldinu. Enginn var að tala um þennan bardaga en þegar Derrick Lewis rotaði Alexander Volkov og fór úr buxunum skaut hann sér upp í þennan ólíklega titilbardaga við Daniel Cormier. Auk þess var bráðskemmtilegt viðtal sem hjálpaði til. En hvað um það. Danier Cormier er betri bardagamaður á allan hátt en Lewis hefur þessa brjáluðu höggþyngd sem getur skilað honum sigri nánast hvenær sem er. Lewis er miklu stærri maður en hann er líka hægari og hefur verra úthald. Það er líka óþægilega stutt síðan Lewis barðist svo vonandi verður hann ferskur.

Spá: DC fer strax í fellu, tekur enga sénsa og nagar Lewis niður. Þetta endurtekur sig í lotu 2 og 3 þar til dómarinn stöðvar bardagann, TKO í 3. lotu.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular