Doo Hoi Choi fær sinn stærsta bardaga á ferlinum í kvöld þegar hann mætir Cub Swanson. Choi lítur ekki út fyrir að vera hættulegur bardagamaður en ekki láta útlitið blekkja ykkur.
Í sannleika sagt lítur Doo Hoi Choi út fyrir að vera 12 ára strákur í lúðrasveit. Staðreyndin er hins vegar sú að hann er 25 ára gamall og hefur unnið 12 af 15 sigrum sínum með rothöggi.
Choi kemur frá Suður-Kóreu og hefur farið á kostum í UFC síðan hann samdi við bardagasamtökin. Velgengi hans hefur þó ekki verið á neinum leifturhraða þar sem hann hefur aðeins barist þrjá bardaga á þremur árum. Alla þrjá bardagana hefur hann klárað með rothöggi í 1. lotu en hann hefur unnið átta bardaga í röð með rothöggi.
Bardaginn gegn Cub Swanson verður hans erfiðasti hingað til og góð prófraun fyrir Kóreska ofurstrákinn. Af útlitinu að dæma á Choi ekki séns í Swanson. Útlitið segir þó ekki allt og er 12 ára rotarinn sigurstranglegri hjá veðbönkum.
Bardaginn er þriðji síðasti bardagi kvöldsins á UFC 206 sem fer fram í Kanada í kvöld. Aðalhluti bardagakvöldsins verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst útsendingin kl 3.