spot_img
Wednesday, December 11, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentSpá MMA Frétta fyrir UFC 206

Spá MMA Frétta fyrir UFC 206

UFC 206 fer fram í Toronto í Kanada í nótt en Anthony Pettis og Max Holloway mætast í aðalbardaga kvöldsins. Hér er spá MMA Frétta fyrir bardagakvöldið.

Titilbardagi í fjaðurvigt: Anthony Pettis gegn Max Holloway

Pétur Marinó Jónsson: Tilgangslaus titilbardagi varð í gær enn tilgangslausari þegar Pettis náði ekki vigt. Núna er þetta bara svona 50% interim titilbardagi. Burt séð frá öllum titlum og kjaftæði þá er þetta mjög flottur bardagi. Pettis ekki með sama swag (eins og krakkarnir segja það) eins og þegar hann var léttvigtarmeistarinn en er alltaf hættulegur. Pettis hefur átt svo ótrúlega misjafnar frammistöður í UFC (er 6-4 í UFC) að það er alltaf erfitt að giska á hans bardaga. Gæti verið hikandi og bakkað og tapað eftir dómaraákvörðun eða bara náð einhverju geggjuðu sparki og klárað bardagann í 1. eða 2. lotu. Hef meiri trú á Holloway og held að hann vinni eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Þetta verður bardagi kvöldsins. Margir eru að spá Holloway öruggum sigri en ég held að þetta verði jafnara en margan grunar. Ég tel að Holloway sé aðeins sprækari og Pettis gæti strögglað eftir erfiðan niðurskurð. Holloway sigrar eftir dómaraúrskurð og verður nýr bráðabirgðameistari í fjaðurvigtinni.

Arnþór Daði Guðmundsson: Þegar ég sá Anthony Pettis í vigtun á móti Charles Oliveira þá var þetta eins og að sjá draug. Hann, eins og Conor, á ekkert að vera að skera niður í 145 pund. En burtséð frá þyngdarpælingum þá er þetta bardagi sem gæti orðið frábær. Frábærir strikerar, báðir aggressívir og með góða tækni. Holloway er meiri brawler á meðan Pettis er nákvæmari. Pettis hefur vinninginn í gólfinu. Ég hugsa að Holloway verði ferskari miðað við hvað Pettis hefur sagt um niðurskurðinn fyrir þennan bardaga. Mig langar að sjá Holloway á móti Aldo. Holloway vinnur eftir klofna dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Ég held að Holloway taki þetta en það verður erfitt að klára nema Pettis verði rýr eftir niðurskurðinn. Max Holloway hefur verið að bæta sig mikið undanfarin ár og hefur nú unnið níu bardaga í röð. Holloway sigrar sannfærandi á stigum.

Anthony Pettis:
Max Holloway: Pétur, Guttormur, Arnþór, Óskar.

Veltivigt: Donald Cerrone gegn Matt Brown

Pétur Marinó Jónsson: Geggjaður bardagi, tveir harðir og skemmtilegir bardagamenn. Líka tveir gæjar sem finnst ekkert leiðinlegra en að fá skrokkhögg í sig. Matt Brown hefur tapað fjórum af síðustu fimm bardögum sínum. Það lítur illa út en þessi töp voru gegn Robbie Lawler, Johny Hendricks, Demian Maia og Jake Ellenberger svo þetta er ekki eins slæmt og það lítur út fyrir að vera. Ellenberger tapið var þó verst þar sem hann var kláraður með höggum og spurning hvort dagar hans sem topp 15 bardagamaður séu ekki taldir. Cerrone alltaf geggjaður og virðist ennþá vera að bæta sig og hann klárar þetta með TKO í 2. lotu eftir skrokkhögg og svo höggum í gólfinu.

Guttormur Árni Ársælsson: Skemmtilegt matchup. Ég held að Cowboy sé sterkari standandi og með betra jiu-jitsu. Sénsinn hjá Brown er að gera þetta að ljótum bardaga, nota dirty boxing, olnboga og hné upp við búrið eins og honum einum er lagið. Cowboy er of reyndur til að falla í þá gryfju og nýtir gott sparkbox til að klára Brown í annarri lotu eftir gott skrokkspark.

Arnþór Daði Guðmundsson: Vá hvað þetta er góður bardagi, tveir gaurar sem vilja bara lumbra á hvor öðrum. Cowboy hefur litið virkilega vel út í veltivigtinni og á eiginlega bara heima þar. Brown hefur sýnt það að hann er veikur fyrir uppgjafartökum og Cowboy er slyngur af bakinu. Standandi vinnur Cowboy en ef bardaginn fer í gólfið eru högg í gólfinu eina von Brown eða clinchið. Ég held að Cowboy sigri eftir uppgjafartak í 3. lotu.

Óskar Örn Árnason: Klikkaður bardagi. Brown mun sennilega vilja standa með kúrekanum en Cerrone er alveg eins líklegur til að fara með bardagann í gólfið. Brown mun ekki gefa þumlung eftir en Cerrone sigrar sannfærandi, meiðir Brown á fótum og klárar með uppgafartaki í gólfinu í fyrstu lotu.

Donald Cerrone: Pétur, Guttormur, Arnþór, Óskar.
Matt Brown:

Fjaðurvigt: Doo Hoi Choi gegn Cub Swanson

Pétur Marinó Jónsson: Hef mjög gaman af Choi, gaman að sjá svona rotara sem lítur út fyrir að vera 12 ára. Held þó að hann sé ekki alveg tilbúinn í Cub Swanson. Cub sigrar eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Korean Superboy er það allra heitasta frá Asíu þessa dagana. Ég held að Cub Swanson eigi stutt eftir af ferlinum og spái Suður-Kóreu manninum öruggum sigri með TKO í fyrstu lotu.

Arnþór Daði Guðmundsson: Ég hef aðeins verið að skoða Superboy undanfarið og verð bara að viðurkenna að mig langar ekkert að fá högg frá honum. Á meðan er farið að síga á seinni hlutann hjá Cub og hann er búinn að berjast á móti þeim bestu í fjaðurvigtinni. Held að Superboy sé of snöggur og brýtur Cub niður og sigrar með TKO í annarri lotu.

Óskar Örn Árnason: Ég veit ekki ennþá með Superboy. Swanson er mjög seigur þó hann sé farinn að dala. Ég held að Swanson haldi sig frá Kóreubúanum og sigri á stigum.

Doo Hoi Choi: Guttormur, Arnþór.
Cub Swanson: Pétur, Óskar.

Millivigt: Kelvin Gastelum gegn Tim Kennedy

Pétur Marinó Jónsson: Ég veit ekki af hverju en ég hef aldrei fílað Kelvin Gastelum. Spái eiginlega alltaf gegn honum og hef aldrei haft mikla trú á honum. Hann fer alltaf eitthvað í taugarnar á mér og er þetta agaleysi hans með vigtunina ekki að hjálpa. Þrátt fyrir það ætla ég að spá honum sigri í kvöld. Tim Kennedy er 37 ára gamall, ekki barist í meira en tvö ár og held ég að það sé stutt í að hann hætti bara. Kelvin Gastelum sigrar eftir dómaraákvörðun.

Guttormur Árni Ársælsson: Gastelum er 175 cm á hæð og á klárlega að vera í veltivigtinni en hann virðist ekki geta hamið sig í hamborgurunum, svona svipað og Johny Hendricks um árið. Kennedy er stór millivigtarmaður og ég tel að stærðarmunurinn verði stærsti þátturinn í sigri hans. Kennedy á stigum.

Arnþór Daði Guðmundsson: Ég verð að viðurkenna það að ég hef einhvern veginn ekki mikla trú á því að Gastelum geri miklar rósir í millivigtinni. Á meðan hef ég beðið eftir því að sjá Tim Kennedy í langan tíma. Dana White hefur sagt að Gastelum fái aldrei aftur að berjast í veltivigtinni en ef Gastelum vill eiga einhvern feril þá verður hann að fara að gera eitthvað í sínum málum í þyngd. Ég held að Kennedy hafi orðið hungraður eftir að hafa misst af Rashad Evans í tvígang núna á dögunum. Kennedy sigrar á stigum.

Óskar Örn Árnason: Held að Kennedy sé of sterkur fyrir Gastelum. Hann tekur þetta á reynslunni og vinnur á stigum.

Kelvin Gastelum: Pétur.
Tim Kennedy: Guttormur, Arnþór, Óskar.

Veltivigt: Jordan Mein gegn Emil Weber Meek

Pétur Marinó Jónsson: Þetta verður mjög skemmtilegur bardagi. Erfiður fyrsti bardagi í UFC fyrir Norðmanninn Emil Weber Meek, maður veit ekki alveg hversu góður hann er. Svo veit maður heldur ekki alveg í hvernig standi hausinn á Jordan Mein er eftir að hafa hætt við að hætta. Hann hefur ekki barist í næstum tvö ár núna en er bara 27 ára gamall. Erfiðast að spá í þennan bardaga en ég ætla að segja bara að Jordan Mein taki þetta með TKO í 2. lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Ég er pínu hissa að Emil ‘Valhalla’ Meek fái þennan bardaga sem sinn fyrsta í UFC. Hann er vinsæll eftir að hafa rotað bad guy nr. 1 í MMA Rousimar Palhares og ég hefði haldið að hann yrði byggður upp hægt og rólega. Mein er virkilega sterkur andstæðingur og ég á erfitt með að spá gegn honum. Hann hefur bara tapað fyrir topp andstæðingum á borð við Woodley og Matt Brown. Seinast tapaði hann reyndar fyrir Thiago Alves en leit rosalega vel út áður en Alves náði honum með góðu skrokksparki. Ég spái því að Mein sýni talsverða tæknilega yfirburði og sigri á stigum.

Arnþór Daði Guðmundsson: Ég er í fyrsta lagi hrikalega spenntur fyrir því að sjá Meek í UFC eftir að hafa rotað Palhares. Alltaf gaman að hafa Skandínava í UFC. Ég held samt að ‘Valhalla’ reynist of reynslulítill gegn eins sterkum andstæðingi og Jordan Mein er. Mein sigrar á stigum eftir einróma dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Held að Mein taki Norsarann, TKO í 2. lotu. Hef samt aldrei séð Norðmanninn en veðja á UFC reynsluna.

Jordan Mein: Pétur, Guttormur, Arnþór, Óskar.
Emil Weber Meek:

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular