spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent2019: Rothögg ársins

2019: Rothögg ársins

Við höldum áfram að gera árið upp en hér skoðum við 10 bestu rothögg ársins. Valið var alls ekki auðvelt en hér koma þau 10 flottustu að okkar mati.

10. Jan Blachowicz gegn Luke Rockhold – 6. júlí

Frumraun Luke Rockhold í léttþungavigt fór ekki eins og best verður kosið. Rockhold ætlaði að vaða í gegnum Jan Blachowicz í léttþungavigt og skora síðan á Jon Jones um titilinn. Rockhold komst aldrei í gang og var rotaður í 2. lotu. Rockhold hefur sagt að hann sé líklegast hættur í MMA en öll fimm töpin hans eru eftir rothögg.

9. Amanda Nunes gegn Holly Holm – 6. júlí

UFC 239 var rosalegt og voru þrjú rothögg á því kvöldi sem komust á topp 10 hjá okkur. Amanda Nunes átti gott ár og átti eitt af rothöggum ársins þegar hún kláraði Holly Holm. Holm er þekkt fyrir háspörkin sín en varð sjálf fyrir barðinu á einu slíku gegn Nunes.

8. Michel Pereira gegn Danny Roberts – 18. maí

Michel Pereira kom inn eins og stormsveipur inn í UFC fyrr á árinu. Hann valtaði yfir Danny Roberts með miklum tilþrifum og tók alls konar stökk. Rothöggið var glæsilegt en seinni bardagi hans í UFC var meira hálfgert stórslys.

7. Kevin Lee gegn Gregor Gillespie – 2. nóvember

Það voru margir spenntir fyrir því að sjá þá Kevin Lee og Gregor Gillespie glíma en ekkert varð úr því þar sem bardaginn kláraðist snemma. Þónokkrir voru búnir að afskrifa Kevin Lee en hann umturnaði því öllu með þessu svakalega rothöggi.

6. Johnny Walker gegn Misha Cirkunov – 2. mars

Johnny Walker endaði árið ekkert sérstaklega vel en byrjaði það með tveimur rothöggum á fyrstu þremur mánuðum ársins. Það tók Walker aðeins 36 sekúndur að klára Cirkunov og það með glæsilegum tilþrifum.

5. Jessica Andrade gegn Rose Namajunas – 11. maí

Það er ekki oft sem við sjáum rothögg eftir slamm í MMA en við fengum eitt slíkt í titilbardaga í sumar. Namajunas var með yfirhöndina gegn Andrade en í 2. lotu var þáverandi meistara fleygt á hausinn. Rosalegt rothögg sem mun seint gleymast.

4. Jorge Masvidal gegn Darren Till – 16. mars

Jorge Masvidal átti frábært ár og er einn af bardagamönnum ársins. Árið byrjaði með látum í London þegar hann mætti Darren Till. Masvidal þaggaði niður í heimamönnum með því að steinrota heimamanninn í 3. lotu. Ótrúlegt augnablik sem byrjaði magnað ár hjá Masvidal.

3. Valentina Shevchenko gegn Jessica Eye – 8. júní

Jessica Eye átti ekkert í fluguvigtarmeistarann Shevchenko. Eftir mjög einhliða 1. lotu henti Shevchenko í háspark í 2. lotu með þessum afleiðingum.

2. Aleksandar Rakic gegn Jimi Manuwa – 1. júní 2019

Alexandar Rakic hefur verið að fara upp metorðastigann í léttþungavigtinni og litið vel út. Sigur hans á Jimi Manuwa í sumar var alvöru yfirlýsing og eitt svakalegasta háspark sem sést hefur í UFC.

1. Jorge Masvidal gegn Ben Askren – 6. júlí

Fljótasta rothögg í sögu UFC og eitt rosalegasta rothögg í sögu UFC. Auðveldasta val allra tíma.

Önnur rothögg sem komu til greina: Anthony Pettis gegn Stephen Thompson, Niko Price gegn Tim Means, Pedro Munhoz gegn Cody Garbrandt, Leo Santos gegn Stevie Ray.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular