Ronda Rousey er yfirburðarmeistari í UFC í dag. Hún hefur klárað alla 12 bardaga sína og virðist engin komast með tærnar þar sem hún hefur hælana. En hvers vegna er Ronda Rousey svona miklu betri en aðrir keppendur í flokknum?
Það fyrsta sem kemur upp í hugann er að hún er einfaldlega lang besti íþróttamaðurinn í flokknum. Hún var ein af þeim bestu í heiminum í júdó og náði til að mynda bronsi í júdó á Ólympíuleikunum 2008. Hún er íþróttamaður í heimsklassa. Vissulega var Sara McMann frábær glímukona og náði í silfur á Ólympíuleikunum 2004 í frjálsri glímu en almennt er talið að júdó kvenna sé hærra skrifað en ólympísk glíma kvenna.
Miesha Tate er þessa stundina talin sú næstbesta í flokknum á eftir Rousey. Bakgrunnur hennar er ólympísk glíma og er það hennar helsti styrkleiki. Hún keppti aldrei á heimsklassa glímumótum en varð ríkismeistari á skólaárum sínum (High School) og var það hennar stærsta afrek á glímuferlinum. Sem íþróttamaður er hún einfaldlega ekki í sama klassa og Rousey.
Bethe Correia, sem Rousey gjörsigraði síðustu helgi, vann í bókhaldi og byrjaði í MMA til að koma sér í form. Rousey hefur verið íþróttamaður allt sitt líf og keppt alla sína ævi.
Kvenna MMA er enn ungt og eru flestir keppendurnir í dag konur sem byrjuðu í MMA á fullorðinsárum. Fáar hafa keppt í bardagaíþróttum alla sína ævi. Það á þó vonandi eftir að breyast á næstu árum. Konur sjá nú hve vel Rousey vegnar í MMA og geta séð fyrir sér að keppa í MMA. Það var kannski ekkert sérstaklega heillandi fyrir margar keppniskonur að snúa sér að MMA þegar tækifærin voru af skornum skammti. Nú er öldin önnur og geta konur fengið sitt lifibrauð í gegnum MMA.
Þó Rousey hafi bætt boxið sitt gríðarlega mikið á undanförnu er hún ekki fullkomin. Bardagar hennar eru stuttir en hún étur engu að síður alltaf nokkur högg þegar hún reynir að ná „clinchinu“. Hún forðast 52% högga andstæðinga sinna sem er lægsta prósentan af öllum meisturunum. Til samanburðar verst Jose Aldo 72% högga andstæðinga sinna en prósentur allra meistaranna má sjá í töflunni hér að neðan.
Meistari | Varin högg (%) |
Joanna Jedrzejczyk | 71% |
Ronda Rousey | 52% |
Demetrious Johnson | 66% |
TJ Dillashaw | 68% |
Conor McGregor | 64% |
Jose Aldo | 72% |
Rafael dos Anjos | 70% |
Robbie Lawler | 62% |
Chris Weidman | 62% |
Daniel Cormier | 64% |
Jon Jones | 66% |
Fabricio Werdum | 57% |
Þrátt fyrir sína stuttu bardaga eru andstæðingar hennar að ná inn nokkrum höggum. Það er eitthvað sem Rousey er að vinna í en sýnir að hún sé ekki ósigrandi.
Það eru fáar konur í MMA með svo kallað „One punch knockout power“ líkt og Jeremy Stephens, Junior dos Santos og John Dodson. Það er erfitt að ímynda sér að andstæðingar geta vaðið inn í „clinchið“ gegn fyrrgreindum mönnum og étið nokkur högg án þess að hafa miklar áhyggjur af því líkt og Rousey gerir. Rousey gæti því verið í talsvert meiri hættu ef hún myndi mæta andstæðingi með meiri höggþunga en andstæðingar hennar hingað til.
Ronda Rousey er yfirburðar íþróttamaður í bantamvigt kvenna í dag. Hún hefur gert vel í að nýta sér yfirburði sína til að komast á toppinn og hefur á sama tíma bætt sig mjög hratt á öðrum vígstöðum. Aftur á móti hefur hún kannski ekki mætt andstæðingi sem er með vopnabúrið sem þarf til að sigra hana.
Það er í raun bara einn andstæðingur sem ógnar henni, ‘Cyborg’ Justino. Á meðan hún er ekki í sama flokki og Rousey á júdókonan eftir að ríkja yfir bantamvigtinni svo lengi sem hún vill.