Bjarki Thor Pálsson mætir Alan Procter á FightStar bardagakvöldinu á laugardaginn. Procter sagðist í gær ætla að bjóða sig fram til forseta Íslands og nú segist hann ætla að láta reisa risa styttu af sér.
Þeir Bjarki Thor og Alan Procter mætast öðru sinni nú á laugardaginn í London. Bardaginn er endurat en fyrri bardagi þeirra endaði með umdeildum hætti eftir að Procter var dæmdur úr leik. Á laugardaginn munu þeir útkljá málin.
Í gær sagðist Procter ætla að bjóða sig fram til forseta Íslands eftir að hann sendir Bjarka í draumalandið. Þessu póstaði hann á vegg Bjarka Thors á Facebook en í dag henti hann í aðra mynd.
Í dag hafði hann föndrað þessa mynd:
„Þetta verður mitt fyrsta verk sem forseti Íslands! Þar á eftir ætla ég að reisa risa styttu af mér í Reykjavík með aðstoð íslenskra aðdáenda/hatursmanna,“ segir Procter við myndina.
Bardagi þeirra fer fram á laugardaginn í veltivigt en hægt verður að horfa á bardagann í beinni útsendingu í gegnum streymisþjónustu.