Alexander Gustafsson tapaði fyrir Anthony Smith á heimavelli í gær. Eftir bardagann sagðist Gustafsson vera hættur sem kom nokkuð á óvart.
Alexander Gustafsson er 32 ára gamall og hefur verið í áratug í UFC. Anthony Smith kláraði Gustafsson með hengingu í 4. lotu og var þetta sjötta tap Gustafsson í UFC.
„Mér finnst eins og þetta sé nokkurn veginn búið. Mér finnst ég ekki vera með þetta lengur og svona er þetta bara. Ég fékk þrjá titilbardaga og þetta hefur verið frábært ferðalag,“ sagði Gustafsson á blaðamannafundinum eftir bardagann.
„Ég er ekki að gera þetta fyrir peninginn eða eitthvað annað. Ég geri þetta af því ég vil vera bestur og vinna þá bestu en ef ég get það ekki þá verður það bara að vera þannig. Ég tapaði fyrir Jon [Jones] og það var þriðji titilbardaginn. Ég meiddist í þeim bardaga og fékk ekki að sýna það sem ég raunverulega get. Ég var því með smávægilega von [um að fá annan titilbardaga] og taldi að þessi bardagi gegn Anthony Smith yrði frábær endurkoma svo ég gæti farið að klifra upp að titilbardaga aftur. En núna þegar ég tapa fyrir Anthony líka þá finnst mér eins og ég sé ekki með þetta lengur. Það er ákveðin staðfesting þar sem ég tapaði þremur titilbardögum.“
Ef Gustafsson er sannarlega hættur lýkur hann ferlinum með 18 sigra og 6 töp. Gustafsson vann bardagamenn eins og Shogun Rua, Jimi Manuwa, Glover Teixeira og Thiago Silva en tapaði fyrir Jon Jones, Daniel Cormier, Phil Davis, Anthony Johnson og nú Anthony Smith. Töpin gegn Johnson og Smith komu á heimavelli og var það sérstaklega sárt fyrir Gustafsson en Gustafsson vann tvo bardaga í Svíþjóð í UFC.
„Mér fannst þetta vera rétta leiðin að segja áhorfendum hér í kvöld að þetta er ákvörðunin sem ég hef tekið. Þetta er ennþá ferskt en innst inni veit ég að hef reynt mitt besta og æft vel. Ég var mjög afslappaður fyrir bardagann en það var samt ekki nóg. Ég veit ekki hvað ég á að gera til að fara að vinna aftur. Ef mér líður þannig veit ég ekki af hverju ég ætti að halda áfram.“
„Ég hef ferðast um heiminn, heimsótt góða staði og eignast marga vini. Ég er mjög sáttur með lífið mitt og það er vegna UFC og þessarar íþróttar. Ég náði tveimur mjög flottum sigrum hérna í Globe höllinni sem ég mun muna eftir alla ævi.“