Það verður sannkallaður ofurbardagi á síðasta bardagakvöldi ársins í UFC. Þá mun bantamvigtarmeistari kvenna skora á fjaðurvigtarmeistarann í bardaga tveggja meistara.
Amanda Nunes er ríkjandi bantamvigtarmeistari á meðan Cris ‘Cyborg’ Justino er meistarinn í fjaðurvigt kvenna. Nunes mun fara upp og skora á Cyborg í titilbardaga í fjaðurvigt á UFC 232 þann 29. desember.
Bardaginn hefur verið lengi í vinnslu og nú stefnir allt í að hann verði loksins að veruleika. UFC hefur ekki staðfest bardagann enn sem komið er en fjölmargir miðlar hafa talað um að bardaginn sé staðfestur og þá hefur Cyborg sjálf talað um bardagann á samfélagsmiðlum.
You called me out. You picked the date. See you Dec 29th. @Amanda_Leoa #ufc232 #NaçãoCyborg pic.twitter.com/a0qGPK8KOW
— CyborgVNunes #UFC232 (@criscyborg) August 22, 2018
Cyborg er ein besta bardagakona allra tíma en hún hefur ekki barist síðan hún sigraði Yana Kunitskaya í mars. Cyborg kláraði Kunitskaya með rothöggi í 1. lotu en það var 17. sigurinn hennar eftir rothögg á ferlinum.
Nunes hefur verið bantamvigtarmeistari síðan hún kláraði Mieshu Tate á UFC 200. Síðast sáum við hana klára Raquel Pennington á UFC 224 í maí.
Bardaginn verður að öllum líkindum aðalbardaginn á UFC 232 í desember en bardagakvöldið fer fram í Las Vegas.