2

Anderson Silva og Nick Diaz féllu báðir á lyfjaprófi

anderson diazUFC gaf það út í gærkvöldi að bæði Anderson Silva og Nick Diaz hefðu fallið á lyfjaprófi. Leifar af marijúana fundust í prófi Diaz á meðan Silva hefur verið fundinn sekur um steranotkun.

Þetta eru svo sannarlega óvænt tíðindi og áfall fyrir UFC að einn besti bardagamaður allra tíma skuli hafa fallið á lyfjaprófi. Sterarnir sem fundust í lyfjaprófi Silva kallast drostanalone og eru þekktir meðal íþróttamanna sem þurfa að halda sig í ákveðnum þyngdarflokki. Lyfjaprófið fór fram þann 9. janúar en UFC vissi ekki af niðurstöðum prófsins fyrr en í gær. Að auki fundust leifar af androsterone sterunum.

Til að bæta gráu ofan á svart féll Nick Diaz einnig á lyfjaprófi. Marijúana fannst í lyfjaprófinu sem framkvæmt var eftir bardagann síðasta laugardag. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Diaz fellur á lyfjaprófi fyrir marijúana notkun.

Anderson Silva fór með sigur af hólmi á laugardaginn en líklegt er að sigurinn verði dæmdur ógildur vegna lyfjaprófsins. Hugsanlega ákveður Anderson Silva að leggja hanskana á hilluna núna. Hann hefur áður sagt að þeir sem falla á lyfjaprófi vegna steranotkunar ættu ekki að fá að berjast aftur.

„Þegar menn falla á lyfjaprófi vegna steranotkunar ætti að banna þeim að berjast aftur. Þegar menn nota stera þá nota þeir þá í langan tíma. Ef þú notar stera í langan tíma áttu við vandamál að stríða og það er slæmt fyrir íþróttina.“

Þetta lét Silva hafa eftir sér í október í fyrra og ef hann er samkvæmur sjálfum sér mun hann aldrei berjast aftur.

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay

2 Comments

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.