spot_img
Monday, November 25, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaAndstæðingur Sunnu: Sunna er góð á öllum vígstöðum bardagans

Andstæðingur Sunnu: Sunna er góð á öllum vígstöðum bardagans

Á laugardaginn berst Sunna Rannveig Davíðdsóttir sinn þriðja bardaga í Invicta bardagasamtökunum. Sunna mætir þá Kelly D’Angelo sem er ósigruð í boxi og MMA.

Kelly D’Angelo er 2-0 sem atvinnumaður í MMA en þetta verður hennar fyrsti bardagi í Invicta bardagasamtökunum. Atvinnuferillinn hefur byrjað vel en þessi þrítuga bardagakona hefur klárað báða bardaga sína.

Meðfram bardagaferlinum starfar Kelly sem sjúkraliði og slökkviliðskona. Það var eiginlega í gegnum starfið sem hún kynntist boxi og síðar MMA.

„Ég keppti fyrst í boxi á góðgerðarviðburði sem kallast Guns and Hoses en þar keppa lögreglumenn og slökkviliðsmenn gegn hvor öðrum í hinum ýmsu keppnum. Þar söfnum við fé fyrir fjölskyldur þeirra sem látið hafa lífið á vettvangi. Ég keppti fyrst í boxi þar og síðar tók ég MMA bardaga þar og var strax háð þessu,“ segir Kelly.

Kelly er 5-0 sem áhugamaður í hnefaleikum, 5-0 sem áhugamaður í MMA og hefur því aldrei tapað á bardagaferlinum. Hún æfir hjá St. Charles MMA í St. Louis í Missouri en þar æfir m.a. Zach Freeman sem vakti athygli á dögunum þegar hann sigraði Aaron Pico á Bellator kvöldinu í New York.

Það er ekki auðvelt að sameina slökkvistarfið með bardagaferlinum en þó helst þetta dálítið í hendur. „Vaktirnar eru mismunandi. Stundum er ég í sjúkrabílnum og stundum í slökkviliðsbílnum. Það getur verið erfitt að samtvinna æfingar og vinnu sérstaklega þar sem við vinnum 48 klukkustunda vaktir og svo fjögurra daga frí.“

„En þetta helst samt í hendur þar sem ég þarf að vera í mjög góðu formi á báðum vígstöðum. Annars vegar þarf ég að vera í góðu formi til að eiga góða frammistöðu í búrinu en hins vegar verð ég að vera í góðu formi þar sem ég gæti verið í aðstæðum þar sem þetta er spurning um líf eða dauða, fyrir mig eða einhvern annan.“

„Ég næ yfirleitt að taka eina æfingu á hverri vakt en þegar ég er í fríi tek ég tveggja til þriggja tíma æfingar á morgnana og aðra tveggja til þriggja tíma æfingu um kvöldið.“

Kelly D'Angelo
Mynd af Facebook síðu Kelly.

Kelly veit svo sem ekki mikið um Sunnu en hefur séð báða bardaga hennar í Invicta. „Ég veit að hún er góð á öllum vígstöðum bardagans. Ég skoða yfireitt andstæðinginn þegar ég fæ boð um að berjast en annars læt ég þjálfara mína um að skoða andstæðinginn vel.“

Bardaginn fer fram á Invicta FC 24 bardagakvöldinu í Kansas í Missouri. Þó Kelly sé frá Missouri býst hún ekki við að áhorfendur styðji hana meira en Sunnu. „Ég á von á vinum og ættingjum en ég veit ekki hvort það telst að vera á heimavelli. Sunna er orðin vel þekkt og á sína aðdáendur. Ég er bara nýja stelpan í hverfinu á leið í slag.“

Kelly hefur nokkrum sinnum farið á Invicta bardagakvöld sem áhorfandi og hefur aldrei orðið fyrir vonbrigðum. Hún býst við að það sama verði upp á teningnum á laugardaginn og ríkir mikil tilhlökkun hjá henni fyrir fyrsta bardaga hennar í Invicta. „Ég er ekki með neitt stórt plan og ætla bara að fá höndina mína upprétta í lok bardagans og berjast góðan bardaga fyrir áhorfendur,“ segir Kelly D’Angelo að lokum.

Eins og áður segir er bardagi hennar við Sunnu á laugardaginn og verður hann sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Hægt er að fylgjast nánar með Kelly á Facebook síðu hennar hér.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular