Anthony Johnson ætlar að snúa aftur í búrið á næsta ári. Samkvæmt umboðsmanni hans stefnir hann á bardaga í mars.
Anthony ‘Rumble’ Johnson lagði hanskana á hilluna í apríl 2017 eftir tap gegn Daniel Cormier. Það var annar titilbardagi hans í léttþungavigt en í bæði skiptin tapaði hann fyrir Cormier.
Nú ætlar hann að fara aftur að keppa í MMA en í þetta sinn verður það í þungavigt. Johnson byrjaði ferilinn sinn í veltivigt en er nú kominn alla leið í þungavigt.
Johnson mun aftur gangast undir lyfjapróf USADA en hann þarf að vera tekinn í lyfjapróf í 6 mánuði (og standast öll próf) þar til hann má keppa aftur.
Johnson hefur greinilega eytt miklum tíma í lyftingarsalnum síðan hann hætti enda er hann orðinn risastór. Johnson hætti upphaflega í MMA þar sem hann vildi einbeita sér að öðrum verkefnum en hann fór í CBD bransann. Þá hefur hann verið að vinna með Bare Knuckle Fighting Championship.
Johnson er orðinn 35 ára gamall og vill hann fá topp 10 andstæðing þegar hann snýr aftur.