spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaArnar Freyr: Þetta var bara eins og í Rocky mynd

Arnar Freyr: Þetta var bara eins og í Rocky mynd

Arnar Freyr
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson

Nicolas Dalby háði frábæran bardaga gegn Darren Till fyrir rúmri viku síðan á UFC bardagakvöldinu í Dublin. Bardaginn endaði með jafntefli en Arnar Freyr Vigfússon var í horninu hjá Dalby. Við heyrðum aðeins í Arnari þar sem hann sagði okkur aðeins frá bardaganum og Dalby.

Arnar Freyr Vigfússon er svartbeltingur í brasilísku jiu-jitsu (BJJ) og kennir hann BJJ hjá Rumblesports í Kaupmannahöfn þar sem Dalby æfir.

„Við Dalby glímum saman í hóptímum en þegar kemur að bardaga tökum við einn á einn session þar sem við glímum á rólegum hraða og brjótum hluti niður. Í undirbúningi fyrir bardaga æfir hann auðvitað mikið og þá er ekki mikil orka til að glíma bara. Þá förum við frekar yfir vissa hluti sem snýr að gólfglímunni,“ segir Arnar.

Í bardaganum gegn Till tapaði Dalby fyrstu tveimur lotunum og hann þurfti því að klára bardagann til að eiga von á sigri. Dalby kom brjálaður til leiks í 3. lotu og var nálægt því að klára bardagann. Hvað sögðuð þið í horninu við hann fyrir 3. lotuna?

„Við vissum að hann hefði tapað 1. lotunni en vonuðum að það hefði ekki verið dæmt 10-8 þar sem hann var kýldur niður. Tue Trnka, þjálfarinn hans og umboðsmaður, hefur unnið með Dalby í 10 ár og samband þeirra er mjög náið. Dalby vildi hætta en Tue nær einhvern veginn að snerta sálu hans og galdrar hann í gang áður en 3. lotan hófst. Þetta var alveg eins og í Rocky mynd. Hann varð bara andsetinn eiginlega. Tue kallaði svo nákvæmlega fléttuna fyrir Dalby sem endaði á haussparki Dalby í byrjun 3. lotu. Þá hrökk allt í gang,“ segir Arnar. Í samtali við MMAviking.com segir Tue nánar frá því hvernig honum tókst að keyra Dalby í gang.

„Það var svo sem ekki mikið um tæknileg hróp úr horninu eftir það. Dalby lét Till bakka og blandaði öllu vel saman, fór í fellur, notaði olnboga, háspörk, fór í mount, notaði allt vopnabúrið sitt til að reyna að klára hann, hann henti öllu í hann nema eldhúsvaskinum eiginlega. Hann var svo ekki langt frá því að klára hann í mountinu um miðbik lotunnar.“

Darren Till hafði sigrað fyrstu tvær loturnar (báðar 10-9) en Dalby tókst að vinna síðustu lotuna 10-8 og var úrskurðurinn því jafntefli, 28-28.

Eins og áður segir var Dalby kýldur niður í lok 1. lotu. „Hann sá aldrei höggið koma, þegar hann kom í hornið spurði hann hvað þetta hefði verið sem kýldi hann niður. Þetta var svona flash KO.“

Þetta er fyrsta sinn sem Arnar er í horninu í UFC bardaga og naut hann reynslunnar. „Reynslan var mjög skemmtileg. Við Dalby tengjumst mjög vel karakterlega séð og það er mjög mikilvægt. Þetta var ennþá sætara eins og þetta fór. Þetta er líka mjög skemmtlegt ferli að fara inn í svona Rocky mynd, upplifa það en ekki átta sig á því að maður sé ekki í bíómynd. Hann og Tue áttu líka mjög fallega stund saman baksviðs þar sem þeir féllust í faðma og grétu, mjög einlæg og falleg stund eins og í Rocky bara.“

Til að geta komið svona til baka þarf ákveðna skapgerð. Arnar segir að Dalby sé algjör vinnuhestur sem gefst ekki auðveldlega upp. „Þegar hann er að undirbúa sig fyrir bardaga er hann on, gefst aldrei upp og gerir sitt. Hann er einn af þeim sem er alltaf betri í keppni en á æfingum.“

„Hann er líka mjög skemmtilegur karakter og góður gaur. Hann er að fara úr 86-89 kg niður í 77 kg á 24 tímum og menn eru yfirleitt í frekar vondu skapi á því stigi. En þegar hann er í þessum aðstæðum er hann samt að hugsa um hvort að við [Arnar og Mats Nilsson, annar hornamanna Dalby] höfum það ekki gott, hvort herbergið okkar sé ekki nógu gott og þess háttar. Hann sér um sína, er einlægur og hjartahlýr.“

Nicolas Dalby Parrot
Mynd tekin af Twitter reikningi Dalby.

Auk þess að vera algjör vinnuhestur er Dalby mikill sprellikall. Síðar um kvöldið birtust myndir af Dalby í páfagaukabúning. „Hann elskar að fara í fyndna búninga og það er mjög skemmtileg orka og flipp í kringum hann. Hann er ekki að gera þetta til að fá athygli, hann hefur bara gaman að því og fólkið í kringum hann líka.“

Bardagi Dalby og Till var valinn besti bardagi kvöldsins og fengu báðir 50.000 dollara í bónusgreiðslu „Þetta var eiginlega eins gott og hægt var fyrir utan að fá ekki sigurinn. Hann náði ekki að klára bardagann en fékk bónusinn sem var frábært. Bardaginn fékk líka mikla athygli og verður spennandi að sjá hvern hann fær næst,“ segir Arnar frá Danmörku.

Mynd: MMAviking.com
Mynd: MMAviking.com
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular