Bellator er að gera skemmtilega hluti þessa dagana með einn af sínum bestu þyngdarflokkum, veltivigtina. Bellator hefur sett upp áhugavert átta manna útsláttarmót sem hefst nú í september.
Bellator er um þessar mundir með þungavigtarmót með útsláttar fyrirkomulagi og er fyrstu umferð lokið þar. Fyrr í vikunni greindi Bellator frá uppröðun bardaganna í veltivigtarmótinu en enn sem komið er aðeins einn bardagi kominn með staðfesta dagsetningu.
Í fyrstu umferð mæast þeir Douglas Lima og Andrey Koreshkov en þeir hafa tvisvar mæst áður og hefur hvor um sig unnið einn bardaga. Þeir mætast þann 29. september á Bellator 206 en sama kvöld mætir veltivigtarmeistarinn Rory MacDonald millivigtarmeistaranum Gegard Mousasi. Það verður nóg að gera hjá MacDonald en hann mætir Jon Fitch í fyrstu umferð og verður veltivigtarbeltið undir í hvert sinn sem hann berst í veltivigtarmótinu.
Loksins, loksins fáum við að sjá þá Paul Daley og Michael ‘Venom’ Page eigast við en þeir mætast í fyrstu umferð. Talað hefur verið um bardaga á milli þeirra í dágóðan tíma en óvíst er hvar og hvenær sá bardagi fer fram.
Neiman Gracie mætir svo Ed Ruth en báðir eru þeir ósigraðir. Lorenz Larkin mætir svo Yaroslav Amosov en sigurvegarinn þar verður varamaður ef einhver skyldi detta út vegna meiðsla.
Eins og áður segir fer fyrsti bardaginn í mótinu fram á Bellator 206 en bardagakvöldið verður sýnt á streymisþjónustunni DAZN sem er eins og er ófáanlegt á Íslandi.