Ben Askren tilkynnti fyrr í kvöld að hann væri hættur í MMA. Askren segir að líkaminn hafi ekki verið í góðu ásigkomulagi og því ákveðið að segja þetta gott.
Ben Askren er hættur í MMA eftir langan feril. Askren tilkynnti þetta í þætti Ariel Helwani fyrr í kvöld.
„Ég er að hætta í MMA og er í raun að hætta í öllu. Ég hef verið í mjaðmavandræðum og ræddi við lækninn minn og ég þarf að fara í mjaðmaskiptaaðgerð,“ sagði Askren.
Askren hefur verið í vandræðum með mjöðmina á sér lengi. Askren hætti fyrst í MMA árið 2017 en snéri aftur fyrr á þessu ári þegar ONE og UFC skiptu á Askren og Demetrious Johnson. Þegar Askren byrjaði aftur að æfa á fullu varð mjöðmin enn verri.
Frammistaða Askren hefur ekki verið sú besta í UFC en hann vann sinn fyrsta bardaga í mars naumlega með umdeildum hætti. Hann var svo steinrotaður af Jorge Masvidal í júlí og hengdur af Demian Maia í október. Askren segir þó að ástandið á líkamanum hafi haft meira að segja um ákvörðun sína heldur en frammistaða hans í búrinu.
Flestir af þeim læknum sem Askren talaði við sögðu að erfitt sé að snúa aftur í átakaíþrótt á borð við MMA eftir slíka aðgerð. Það hafi gert útslagið fyrir Askren og því leggur hann hanskana á hilluna 35 ára gamall eftir 10 ára feril.
Askren endar ferilinn 19-2 (1 bardagi dæmdur ógildur) en hann tók sinn fyrsta MMA bardaga í febrúar 2009.