Fyrrum léttvigtarmeistari UFC, Benson Henderson, hefur samið við Bellator. Henderson hafði einnig verið WEC meistarinn og því lengi verið á samningi hjá Zuffa.
Ben Henderson varð léttvigtarmeistari UFC í febrúar 2012 og varði beltið þrívegis áður en hann tapaði beltinu til Anthony Pettis í ágúst 2013. Henderson yfirgefur UFC með 11 sigra og þrjú töp.
Síðustu tveir bardagar Henderson hafa farið fram í veltivigt en óvíst er í hvaða þyngdarflokki hann muni berjast í í Bellator.
Henderson ákvað að semja ekki við UFC þegar hann fékk fyrsta samningsboðið og ákvað að klára síðustu tvo bardagana á samningnum. Þannig gat hann kannað virði sitt með því að fá samningsboð frá öðrum bardagasamtökum. Það má reikna með að Bellator hafi boðið betur en UFC (ef UFC hefur á annað borð boðið honum samning) og Henderson eðlilega samþykkt betra boðið.
Henderson er annað stóra nafnið sem yfirgefur UFC fyrir Bellator. Phil Davis samdi við Bellator í fyrra en Davis lét einnig samninginn sinn renna út líkt og Henderson. Henderson var í aðalbardaganum í síðustu níu af tíu bardögum sínum í UFC.
Þetta kom fram á heimasíðu Henderson og þakkaði hann Dana White, Lorenzo Fertitta og ótal starfsmönnum UFC fyrir samstarfið í gegnum árin.
Þess má geta að Henderson var í 13. sæti á styrkleikalista UFC í veltivigtinni. Gunnar er sem stendur í 14. sæti og má búast við að hann færist upp um eitt sæti er Henderson dettur út af listanum.