Fyrrum léttvigtarmeistarinn Benson Henderson hefur ákveðið að færa sig upp í veltivigtina og mun mæta Brandon Thatch þann 14. febrúar. Bardaginn verður aðalbardagi UFC Fight Night í Colorado.
Upprunalega átti Thatch að mæta Stephen ‘Wonderboy’ Thompson í aðalbardaga kvöldsins en Thompson neyddist til að draga sig frá keppni eftir að hafa hlotið rifbeinsmeiðsl á æfingu.
Benson Henderson hefur lengi vel verið einn allra sterkasti léttvigtarkappinn í UFC en hefur nú tapað tveimur bardögum í röð, seinast gegn Donald Cerrone í janúar. Henderson hefur tapað tvisvar fyrir ríkjandi meistara Anthony Pettis og má leiða líkur að því að hann telji meiri líkur á titilbardaga í veltivigtinni. Henderson, sem var nokkuð stór léttvigtarmaður, mun þó vera minni fyrir veltivigtina – en sem dæmi er Brandon Thatch með 11 cm lengri faðm en Henderson.
Það skal þó aldrei vanmeta Henderson og verður fróðlegt að sjá hvað hann getur gert í nýjum þyngdarflokki.
Upphaflega áttu þeir Matt Brown og Tarec Saffiedine að mætast í aðalbardaga bardagakvöldsins en eftir að Saffiedine meiddist var Matt Brown færður á UFC 185 og Thatch-Thompson varð að aðalbardaga kvöldsins.
Brandon Thatch er virkilega spennandi bardagamaður í veltivigtinni. Eftir að hafa sigrað fyrstu tvo bardaga sína með tæknilegu rothöggi, bæði eftir hné í skrokkinn, hefur lítið spurst til hans síðan. Thatch hefur ekki barist síðan í nóvember 2013 en hann hefur glímt við meiðsli síðan. Þessi 29 ára bardagamaður er með 11 sigra (sjö eftir rothögg og fjóra eftir uppgjafartak) og eitt tap (dómaraákvörðun).