Einn þekktasti dómarinn í MMA, ‘Big’ John McCarthy, er hættur að starfa sem dómari í bili. McCarthy hefur verið ráðinn sem lýsandi hjá Bellator.
John McCarthy er einn reynslumesti dómarinn í MMA en hann dæmdi sinn fyrsta bardaga á UFC 2 árið 1993. McCarthy var einn af þeim sem kom að fyrsta regluverkinu í UFC og einn virtasti dómarinn í MMA í dag. Það verður því mikill missir af honum sem dómara.
Hann mun nú starfa sem lýsandi fyrir Bellator enda með mikla reynslu sem dómari í búrinu og dómari utan búrsins (að skora bardaga). Þá er hann einnig svart belti í brasilísku jiu-jitsu og ætti því að geta skýrt greinilega frá því sem er að gerast í búrinu. Chael Sonnen mun einnig hefja störf sem lýsandi hjá Bellator.
McCarthy er þó ekki endanlega hættur sem dómari en ætlar þessa dagana að einbeita sér að starfi sínu hjá Bellator.
Bardagi Khabib Nurmagomedov og Edson Barboza á UFC 219 er því síðasti bardaginn sem John McCarthy dæmdi þangað til hann snýr aftur.
Heimild: MMA Junkie