spot_img
Sunday, November 24, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlent Antonio ´Big Nog´Nogueira - bardagamaðurinn sem átti ekki að ganga framar

Antonio ´Big Nog´Nogueira – bardagamaðurinn sem átti ekki að ganga framar

UFC 140: Weigh In

Föstudaginn 11. apríl mætast þeir Antonio Rodrigo Nogueira og Roy Nelson í aðalbardaganum á UFC: Dubai viðburðinum. Bardaginn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst útsendingin kl 18.

Antonio Rodrigo Nogueira, eða Big Nog eins og hann er betur þekktur, er ein af goðsögnum MMA heimsins. Þessi 37 ára Brassi er einn af bestu þungavigtarmönnum sögunnar en hann skipar stóran sess í hjörtum bardagaáhugamanna.

Big Nog og tvíburabróðir hans, Antonio Rogerio Nogueira (Lil Nog), hafa barist sem atvinnumenn í íþróttinni í 15 ár. Þeir byrjuðu aðeins 4 ára gamlir í júdó og var það byrjunin á löngum ferli þeirra í bardagaíþróttum. Það er í raun afrek út af fyrir sig að Big Nog skuli vera atvinnuíþróttamaður í dag þar sem hann lenti í alvarlegu slysi sem barn og átti ekki að geta gengið framar. Hann var 10 ára gamall þegar stór flutningarbíll bakkaði yfir hann. Big Nog lá í dái í 4 daga og þurfti að fjarlægja hluta lifrinnar, hluta úr bakvöðvum hans og eitt rifbein eftir slysið. Big Nog var tjáð að hann ætti ekki eftir að ganga aftur en hann neitaði að trúa því og fór í stífa sjúkraþjálfun til að læra að ganga aftur.

Þremur árum eftir slysið gat hann aftur æft bardagaíþróttir og var búinn að ná sér að fullu. Eftir að æft box, jiu-jitsu og standandi glímu tók hann sinn fyrsta MMA bardaga árið 2001. Hann varð Pride þungavigtarmeistari en tapaði titlinum til erkifjandar síns, Fedor Emelianenko. Þeir mættust þrisvar í Pride en aldrei náði Big Nog að sigra.

Big Nog rotar Brendan Schaub árið 2011.

Big Nog var þekktur fyrir að vera með gríðarlega sterka höku og gat tekið við ógrynni af höggum án þess að rotast. Leikáætlun hans virtist oft á tíðum snúast um að liggja á bakinu og láta kýla sig í hausinn þangað til andstæðingurinn varð þreyttur en þá nýtti Big Nog tækifærið og náði þeim í uppgjafartök. Big Nog er frábær gólfglímumaður en hann er með 21 sigur að baki eftir uppgjafartök.

Big Nog háði marga frábæra bardaga í Pride gegn stórum nöfnum á borð við Mirko “Cro Cop” Filipovic, Josh Barnett og Dan Henderson. Bardagi hans gegn Bob Sapp er afar minnistæður en Sapp var 70 kg þyngri en þungavigtarmaðurinn Big Nog. Hinn risavaxni Sapp kastaði Big Nog til og frá og lamdi hann eins og harðfisk þangað til Big Nog náði honum í “armbar” í 2. lotu.

Í þriðja og síðasta bardaga Big Nog gegn Fedor Emelianenko mættust þeir á gamlárskvöldi í Tókýó. Tímaskynið hans Big Nog virðist vera í ólagi en hann hefur í nokkur skipti misst af flugi vegna seinagangs. Fyrir þriðja bardaga sinn gegn Emelianenko misst hann af flugi sínu og var ekki lentur í Tókýó fyrr en nokkrum klukkustundum fyrir bardagann. Mikill snjóstormur gekk yfir Tókýó þetta kvöld og var Big Nog fastur í umferðarteppu þegar hann átti að vera mættur í höllina þar sem bardaginn fór fram. Venjan var í Pride á þessum tíma að allir bardagamenn kvöldsins voru kynntir áður en fyrsti bardagi kvöldsins hófst en þetta kvöld var Big Nog ekki mættur í kynninguna og fastur í umferðarteppu. Menn dóu ekki ráðalausir þar sem tvíburabróðir hans, Lil Nog, var á staðnum. Því klæddu þeir hann upp sem Big Nog og tók enginn eftir því að þetta var rangur Nogueira bróðirinn í kynningunni.

Susumu Nagao's Photograph

Aðferð hans til að verja högg með hausnum sínum hefur tekið sinn toll á Big Nog og hefur granít sterka hakan hans yfirgefið hann. Hann sigraði UFC titilinn í febrúar 2008 en tapaði honum sama ár þegar Frank Mir rotaði hann í 2. lotu. Þetta var í fyrsta sinn sem Big Nog var rotaður og virtist hakan hans hafa yfirgefið hann.

Nokkrum árum síðar mættust Big Nog og Frank Mir aftur og í þetta sinn varð Frank Mir fyrsti maðurinn til að sigra Big Nog eftir uppgjafartak. Big Nog ætlaði þó ekki að gefast upp (tappa út) og braut Frank Mir því á honum höndina. Big Nog er stoltur maður og ætlaði ekki að láta Frank Mir sigra sig eftir uppgjafartak.

Frank Mir brýtur hönd Big Nog.

Síðan Big Nog tapaði titlinum hefur hann átt misjöfnu gengi að fagna og aldrei unnið fleiri en einn bardaga í röð. Hann er þó löngu orðin goðsögn í íþróttinni og á enn stóran aðdáendahóp. Á föstudaginn mætir hann Roy Nelson og verður forvitnilegt að sjá hvernig þessir gömlu jálkar munu koma til leiks.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular