Bjarki Þór Pálsson var rétt í þessu að vinna Evrópumeistaratitil FightStar bardagasamtakanna. Bjarki Þór sigraði Quamer Hussain eftir örugga dómaraákvörðun.
Bardaginn var einhliða Bjarka í vil og þá sérstaklega seinni tvær loturnar. Bjarki tók Hussain niður að vild allar þrjár loturnar og komst hann nánast ekkert á lappir fyrr en lotan kláraðist.
Hussain beitti spörkunum vel standandi á milli þess sem Bjarki tók hann niður. Í 3. lotu komst Bjarki á bakið á honum og reyndi að læsa hengingunni en Hussain varðist vel. Bjarki reyndi að finna opnanir til að klára bardagann en Hussain var hreyfanlegur af botninum sem gerði Bjarka erfitt fyrir að klára hann.
Þetta var afar sannfærandi frammistaða hjá Bjarka Þór og er hann núna 4-0 á atvinnumannaferlinum. Frábær sigur hjá honum í aðalbardaga kvöldsins og hans fyrsti titill á atvinnumannaferlinum.
Af bardögunum fimm sigruðu Íslendingar tvo og töpuðu þremur. Íslendingarnir, og þá sérstaklega Bjarki Þór, fengu frábæran stuðning í höllinni í kvöld. Það verður spennandi að sjá hver næstu skref Bjarka Þórs verða en þetta var þriðji bardaginn hans í FightStar samtökunum.