spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaBjarki Þór og þrír aðrir Íslendingar keppa á FightStar í London þann...

Bjarki Þór og þrír aðrir Íslendingar keppa á FightStar í London þann 7. október

Þeir Bjarki Þór Pálsson, Ingþór Örn Valdimarsson, Bjarki Pétursson og Þorgrímur Þórarinsson munu allir keppa á FightStar Championship 12 bardagakvöldinu þann 7. október. Þeir tveir fyrrnefndu keppa atvinnubardaga á meðan þeir síðarnefndu keppa áhugamannabardaga.

Bjarki Þór Pálsson (3-0) tekur sinn fjórða atvinnubardaga í október en hann er einn farsælasti atvinnubardagamaður okkar Íslendinga. 11 sigrar og aðeins eitt tap á áhugamannaferlinum var ansi góð uppskera en auk þess varð hann Evrópumeistari árið 2015.

Þann 7. október mætir hann hinum breska Quamer ‘Machida’ Hussein (6-2). Hussein þykir öflugur bardagamaður en bardagi þeirra verður aðalbardaginn á FightStar Championship 12 kvöldinu í London.

„Ég er gríðarlega sáttur með að vera búinn að fá svona öflugan andstæðing og að búið sé að ganga frá þessu öllu saman. Ég barðist seinast í apríl og það er alveg orðið tímabært að fara aftur í búrið og halda þessu ævintýri áfram,“ segir Bjarki Þór er fram kemur í fréttatilkynningu.

„Ég er í frábæru formi núna. Ég er að fara aftur í léttvigt, en í seinustu tveim bardögum hef ég barist í veltivigt sem er þyngdarflokkurinn fyrir ofan, 7 kílóum þyngri. Ég er því léttari, sneggri og snarpari, en hef alveg viðhaldið styrknum. Sjálfstraustið er í botni og bara veit að þetta verður besti bardaginn minn á ferlinum.“

Mynd: Rúnar ‘Hroði’ Guðmundsson.

Eins og áður segir verður Bjarki Þór ekki einu Íslendingurinn á þessum viðburði þar sem þrír aðrir eru búnir að fá staðfestan bardaga. Ísfirðingurinn Bjarki ‘Big Red’ Pétursson (1-0) mætir Felix Klinkhammer (4-0) í -81 kg hentivigt, Þorgrímur ‘Baby Jesus’ Þorgrímsson (1-0) mætir Dalius Sulga (4-3) í veltivigt og Akureyringurinn Ingþór Örn Valdimarsson (0-1) fer í sinn annan atvinnubardaga gegn hinum pólska Dawid Panfil (0-0) í millivigt. Ingþór tók sinn fyrsta bardaga í maí 2007 – sama kvöld og Gunnar Nelson barðist í fyrsta sinn.

Samningaviðræður eru í gangi fyrir fleiri íslenska bardagamenn um að berjast á þessum sama viðburði og gæti farið svo að þeir yrðu sjö talsins ef allt gengur eftir. Nánar verður frá því sagt þegar staðfestingar berast.

„Það er ótrúlega gaman að við séum svona margir að fara að berjast á sama bardagakvöldinu. Við erum allir að æfa saman og erum að hjálpa hvor öðrum eins og við getum. Það eru svo margir góðir íslenskir bardagamenn að slíta barnsskónum um þessar mundir og bara á þessu eina bardagakvöldi gætu verið allt að fjórir atvinnubardagar með íslenskum bardagamönnum ef allt gengur eftir. Það þykir mér vera saga til næsta bæjar.“

Mynd: Rúnar ‘Hroði’ Guðmundsson.

Bjarki Þór sigraði síðast Alan Procter í apríl í London en þá voru rúmlega 50 Íslendingar með í för sem hvöttu hann til dáða.

„Það var ómetanlegt að hafa svona marga víkinga með mér. Hávaðinn í þeim var gríðarlegur og ég fann bara hvað það veitti mér mikla orku að hafa þetta fólk hinum megin við búrið, öskrandi mig áfram. London er stutt frá, flugið er ódýrt og eins og gengið er núna þá er bara ekkert svo dýrt að skella sér í helgarferð þangað, kíkja á bardaga og gera fleira skemmtilegt. Mig langar allavega að hvetja sem flesta til að koma og hvetja okkur áfram. Fightstar Championship bardagasambandið er hraðast vaxandi bardagasambandið í Evrópu um þessar mundir og kvöldin sem þeir halda eru mjög flott og faglega framkvæmd.“

Viðskilnaður við Mjölni

Nánast allir Íslendingar sem barist hafa í MMA hafa komið úr röðum Mjölnis. Megnið af sínum ferli hefur Bjarki Þór barist fyrir hönd Mjölnis og sama má segja um Bjarka Pétursson og Þorgrím. Þessi hópur sagði hins vegar skilið við Mjölni fyrir um tveimur mánuðum síðan og hyggst stofna nýtt bardagafélag í Reykjavík á næstu mánuðum.

„Á tímapunktinum sem við tókum ákvörðunina um að færa okkur um set þá fannst okkur fókusinn í Mjölni vera að dofna hvað það varðar að efla það bardagafólk sem vildi keppa og komast langt innan íþróttarinnar. Félagið er búið að stækka svo hratt og er orðið svo fjölmennt að það er alveg skiljanlegt að áherslurnar séu lagðar á að láta reksturinn ganga og þjóna sem flestum. Það rímar hins vegar ekki alveg við þarfir okkar sem erum að reyna að byggja okkur upp líf og starf í gegnum íþróttina. Það má hins vegar koma fram að það hafa margar jákvæðar breytingar orðið í Mjölni undangengnar vikur og er mikill vilji frá báðum aðilum að eiga í virku samstarfi fram veginn,“ segir Bjarki Þór að lokum.

Bardagarnir fara fram í Brentford Fountain Leisure Center sem er um 2000 manna salur í Suð-Vestur London þann 7. október.

Mynd: Baldur Kristjáns.
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular