spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaBjarki Þór: Tækifæri til að sýna stóru samböndunum úr hverju ég er...

Bjarki Þór: Tækifæri til að sýna stóru samböndunum úr hverju ég er gerður

Eins og við greindum frá á föstudaginn er Bjarki Þór Pálsson strax kominn með sinn næsta bardaga. Bjarki Þór mætir Steve O’Keeffe en þetta verður fyrsta titilvörn Bjarka.

Bjarki Þór (5-0) vann léttvigtartitil FightStar samtakanna fyrr í mánuðinum eftir öruggan sigur á Quamer Hussain. Bjarki kom algjörlega heill úr þeim bardaga og gerði mótshöldurum ljóst að hann vildi berjast aftur sem fyrst.

Bardaginn gegn Steve O’Keeffe (7-3) var því settur saman og mætast þeir á FightStar 13 þann 9. desember. Evrópumeistaratitill Bjarka Þórs verður í húfi og mætir hann sínum erfiðasta andstæðingi til þessa.

„Beltinu fylgir sviðsljós. Þeir bestu girnast það og fyrir vikið var hægt að fá andstæðing eins og Steve O’Keeffe til að fallast á að berjast við mig. Ég er gríðarlega ánægður með að fá bardaga strax aftur og það á móti andstæðingi eins og honum. Þetta er mitt tækifæri til að sýna stóru samböndunum úr hverju ég er gerður og með öruggum sigri þá tek ég af allan vafa um það að ég eigi heima hjá UFC eða Bellator. Ég fann það mjög þétt gegn Quamer Hussain í seinasta bardaga hvað ég var miklu betri en hann að öllu leyti. Sá bardagi reyndi einfaldlega ekki nógu mikið á mig. Ég vil þurfa að hafa meira fyrir þessu og nú hefur bænum mínum verið svarað,“ segir Bjarki Þór er fram kemur í fréttatilkynningu.

Steve O’Keeffe hefur barist við reynslumikla bardagamenn og ber þar helst að nefna Íslandsvinina Artem Lobov og Conor McGregor. O’Keeffe sigraði Lobov árið 2011 en tapaði fyrir Conor árið 2012.

„Ég hef lengi vitað af Steve O ́Keeffe. Hann er einn af þeim hæst skrifuðu sem eru að berjast utan stóru sambandanna. Hann hefur barist við virkilega öfluga bardagamenn. Þar á meðal þá Conor og Artem, sem ég hef æft með og þekki nokkuð vel. Hann var að opna sinn eigið klúbb og einbeita sér að þjálfun og tók sér hlé frá keppni á meðan. Þess vegna hefur maður ekkert mikið heyrt hann nefndan síðastliðin tvö til þrjú árin. Hann snéri svo aftur fyrr á þessu ári í bardaga hjá Cage Warriors og kláraði sinn andstæðing í fyrstu lotu þannig að það er klárt að hann er í góðu formi og mun mæta með einbeittan vilja til að hirða af mér beltið.”

O’Keeffe er öflugur bardagamaður en hann er bæði með svart belti í brasilísku jiu-jitsu og taekwondo. Þar að auki er hann með brúnt belti í júdó og því ljóst að þetta er öflugasti andstæðingur sem Bjarki Þór hefur mætt.

„Ég ætti að hafa einhverja yfirburði hvað líkamlegan styrk varðar þar sem hann er að koma upp úr fjaðurvigtinni í léttvigtina, en ég mun ekki vanmeta hann. Ég veit að þetta er stórhættulegur andstæðingur, sérstaklega í gólfinu. Ég bý ansi vel að því að hafa Gunnar Nelson til að æfa með og það ætti að geta talist gott veganesti inn í þennan bardaga. Jafnframt þá er ég búinn að leggja mikla áherslu á striking-ið mitt á undangengnum mánuðum og ég er mjög ánægður með hversu vel það nýttist mér í seinasta bardaga. Það er á hreinu að ég mun óhræddur standa á móti honum og skiptast á höggum við hann ef bardaginn þróast þannig. Ég er í raun tilbúinn núna og ég væri helst til í að fara að berjast næstu helgi. Ég er því eiginlega bara að telja dagana þar til 9. desember rennur upp.“

Bardaginn verður aðalbardaginn á FightStar 13 kvöldinu þann 9. desember í Brentford Fountain Leisure Center höllinni í suðvestur London. Nú þegar er búið að staðfesta bardaga Ingþórs Valdimarssonar og má búast við að fleiri Íslendingar berjist á kvöldinu.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular