Vefurinn Bleacher Report tók saman lista yfir bestu veltivigtarmenn heims en þar er okkar maður, Gunnar Nelson, í 9. sæti. Gunnar er fyrir ofan þekkta kappa á borð við Demian Maia og Tyron Woodley.
Í greininni er farið ítarlega yfir styrkleika og veikleika Gunnars. Geta hvers bardagamanns er greind eftir fjórum þáttum; glíma (wrestling), gólfglíma (grappling), sparkbox (striking) og greind í bardaga (Fight IQ). Greinarhöfundur telur Gunnar öflugan á öllum sviðum en telur að hans helsti veikleiki sé vörn gegn höggum þar sem hann er yfirleitt með hendurnar neðarlega. Gunnari er spáð mikilli velgengni í framtíðinni og telur Jonathan Snowden, greinarhöfundurinn, að Gunnar gæti orðið meistari í framtíðinni.
Jonathan Snowden er afar virtur penni í MMA-heiminum og hefur skrifað tvær frábærar bækur sem lesendur ættu að kanna nánar, Total MMA: Inside Ultimate Fighting og The MMA Encyclopedia.