Þáttastjórnandinn og fyrrum UFC bardagamaðurinn Brendan Schaub segir að dómarinn hafi gert stór mistök í bardaga Gunnars og Santiago Ponzinibbio. Schaub segir að dómarinn hafi einfaldlega ekki sinnt starfi sínu í búrinu.
Þetta segir Brendan Schaub í hlaðvarpi sínu, Fighter and the Kid. Gunnar tapaði fyrir Santiago Ponzinibbio síðastliðinn sunnudag eftir rothögg en fékk ítrekað putta í augun frá Ponzinibbio í bardaganum.
Gunnar sagði eftir bardagann að hann hefði átt að stoppa og láta dómarann vita að hann hefði fengið putta í augað. Hann sagðist hins vegar hafa verið gráðugur og talið sig geta klárað Ponzinibbio fljótlega.
Schaub segir að vissulega hefði Gunnar átt að gefa dómaranum merki en á sama tíma getur hann ekki verið að horfa á dómarann og tala við hann í miðjum bardaga. „Dómarinn er þarna til að gegna sínu starfi og gerði það ekki. Hvað ertu annars að gera þarna?“ spyr Schaub.
Schaub taldi í fyrstu að Gunnar væri bara tapsár eftir bardagann en eftir að hafa séð augnpotin betur breytti hann skoðun sinni.
Schaub segir að þetta verði að hafa einhvers konar afleiðingar. „Þetta er dómaranum að kenna, gerðu vinnuna þína! Þeir munu aldrei breyta þessu en af hverju ekki að skoða þetta á mánudegi og breyta þessu? Af hverju að verðlauna svona hegðun? Hefði hann unnið Gunnar án augnpotanna? Sennilega ekki. Gunnar er betri bardagamaður 99% tímans. Augnpotin breyttu bardaganum. Það eru engar afleiðingar fyrir dómarann, hann hefði ekki átt að fá greitt þetta kvöld því hann sinnti ekki starfinu sínu. Hann var ekki að vernda bardagamennina. Til hvers er hann þarna?“
Hér að neðan má sjá Schaub tjá sig um bardagann.