spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentBrotinn Aaron Pico

Brotinn Aaron Pico

Gríðarleg eftirvænting ríkti fyrir frumraun Aaron Pico í MMA. Núna tæpum tveimur árum eftir hans fyrsta MMA bardaga hefur spennan minnkað snarlega.

Aaron Pico barðist sinn fyrsta atvinnubardaga í MMA í Bellator þann 24. júní árið 2017. Margir (þar á meðal við) töluðu um að hér færi á ferð einn efnilegasti bardagakappi heims og var það ekki að ástæðulausu.

Bellator samdi við hann 17 ára en þegar hann var 19 ára var hann aðeins hársbreidd frá því að komast á Ólympíuleikana í glímu. Það var því vitað að hann væri með fellurnar á hreinu en hann var auk þess mjög frambærilegur boxari, var með um 30 áhugamannabardaga í hnefaleikum og æfði í boxklúbbi Freddie Roach. Hann var heldur ekki alveg blautur á bakvið eyrun í MMA þar sem hann var með um 50 pancrase bardaga (svipað og MMA nema engin högg í höfuðið) víðs vegar um Evrópu.

Pico var því að æfa fleiri en eina bardagaíþrótt frá unga aldri með góðum árangri og hefur bardagaaðdáendum dreymt um að sjá afrakstur þess í MMA á hæsta stigi. Það var því góð ástæða fyrir væntingunum þó lítið loft sé í blöðrunni nú.

Hans fyrsti bardagi var gegn Zach Freeman (þá 8-2) ofarlega á Bellator 180 bardagakvöldinu í Madison Square Garden. Frumraunin var svo sannarlega undir skæru ljósunum og þar féll hann á stóra prófinu. Freeman kýldi Pico niður eftir nokkrar sekúndur og kláraði hann með hengingu eftir 24 sekúndur í 1. lotu. Hörmuleg frumraun.

Pico kom sér þó aftur af stað og vann fjóra bardaga í röð – alla með rothöggi í 1. lotu. Pico lestin virtist því vera komin á fullt en slæmt rothögg gegn Henry Corrales hægði á lestinni. Rothöggið var nokkuð hrottafengið en þrátt fyrir það vildi Pico áfram fá erfiða andstæðinga.

Pico mætti Adam Borics um síðustu helgi en Borics var fyrir bardagann 12-0 og með tvöfalt fleiri bardaga en Pico. Pico stjórnaði Borics vel með fellum og var með fulla stjórn á bardaganum þar til hann var rotaður.

Í fyrstu bardögunum var Pico nánast ekkert að nota fellurnar sínar og treysti á boxið. Gegn Borics notaði hann nánast eingöngu fellurnar og var of fyrirsjáanlegur enda var boxið hans varla sjáanlegt. Borics las Pico og smellhitti því með fljúgandi hné í 2. lotu.

Núna er Pico 4-3 sem atvinnumaður eftir sjö bardaga á tveimur árum og er þetta langt frá því að vera byrjunin sem búist var við frá „efnilegasta bardagamanni heims“.

Mynd: Dave Mandel-USA TODAY Sports

Kannski er þetta samt bara eðlilegt. Menn geta verið með frábæra ferilskrá í öðrum bardagaíþróttum en svo átt erfiðara með að setja þetta saman. Pico er líka að taka sín fyrstu skref í MMA gegn sterkum andstæðingum. Hann er ekki að fá að gera sín litlu mistök á litlum pöbba bardagakvöldum í einhverjum smábæjum í Bandaríkjunum gegn minni spámönnum. Pico vildi fara beint í djúpu laugina og fá sterka andstæðinga en það er áhætta sem hefur ekki borgað sig.

Síðasti andstæðingur hans, Adam Borics, barðist sína fyrstu níu bardaga í Ungverjalandi og í Bosníu gegn andstæðingum sem voru með viðlíka reynslu og hann. Borics var ekki í Bellator fyrr en hann var orðinn 9-0 og var ekki í Madison Square Garden fyrr en hann var 25 ára og 12-0.

Bellator hefur verið gagnrýnt fyrir andstæðingana sem hafa orðið fyrir valinu hjá Pico. Zach Freeman var 8-2, Justin Linn 7-3, Shane Kruchten 12-3, Lee Morrison 18-8, Leandro Higo 18-4 og Henry Corrales 18-4 þegar þeir mættu Pico. Allir voru þeir með margfalt fleiri bardaga en Pico þegar þeir mættu honum. Bellator er samt í erfiðri stöðu og eiginlega ómögulegt að gera rétt án þess að fá gagnrýni. Annað hvort hefði Pico fengið Greg Hardy meðferðina (að fá andstæðinga sem Pico á að vinna) eða alvöru andstæðinga eins og Pico fékk. Bellator hefði alltaf fengið sinn skerf af gagnrýni, sama hvor leiðin hefði orðið fyrir valinu.

Á föstudaginn var annar þekktur efnilegur bardagamaður að berjast og hefur hann fengið lakari andstæðinga en Pico. Dillon Danis (sem er núna 2-0 sem atvinnumaður) er að fá andstæðinga sem eru ekki í hæsta gæðaflokki og hefur Bellator strax fengið gagnrýni frá aðdáendum fyrir að velja auðvelda andstæðinga fyrir hann. Menn vilja strax sjá hann á móti topp 10 andstæðingum en þrátt fyrir stórar yfirlýsingar Danis er hann ekki tilbúinn í það ennþá.

Á meðan Dillon Danis hefur haldið sig við SBG og Borics verið hjá Hard Knocks 365 (Henry Hooft og félagar, gamla Blackzilians) hefur Pico verið á flakki. Pico byrjaði hjá AKA en þar voru þeir Bob Cook (þjálfari), Luke Rockhold og Daniel Cormier yfir sig hrifnir af Pico. Pico fór svo að æfa með T.J. Dillashaw, Cub Swanson og fleirum hjá MMA Reign en fyrir sinn síðasta bardaga fór hann til Greg Jackson.

Jackson hefur aldrei verið neinn venjulegur þjálfari. Hann sést mun minna í dag en hann gerði en kýs frekar að vinna með fáum en gera það vel. Jackson setti strax upp einhverja áætlun en hún var ekki bara fyrir næsta bardaga heldur áætlun um hvernig Pico gæti orðið goðsögn sem talað yrði um 300 árum eftir að Pico yfirgefur þennan heim.

Sú áætlun byrjaði ekki eins og best verður kosið en það er fráleitt að segja að Pico sé búinn. Hann er ennþá bara 22 ára gamall og er með hæfileika til að gera betur. Það er bara spurning hvort hakan hans þoli meira en núna hefur hann verið rotaður illa tvisvar sinnum á fyrstu tveimur árum sínum í MMA og það tvisvar á þessu ári.

Það verður áhugavert að sjá hver næstu skref Pico verður og hvort hann nái að rétta úr kútnum.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular