Ansi vandræðaleg uppákoma átti sér stað á UFC 205 á laugardaginn. Bruce Buffer tilkynnti Tyron Woodley sem sigurvegara en þurfti að leiðrétta niðurstöðuna skömmu síðar.
Kynnirinn Bruce Buffer er fagmaður fram í fingurgóma en sjaldséð mistök áttu sér stað á laugardaginn. Buffer las upp skorin hjá dómurunum þar sem tveir dómarar dæmdu bardagann jafntefli en einn dómari dæmdi Woodley sigur. Buffer tilkynnti að Woodley hefði sigrað eftir klofna dómaraákvörðun en það reyndist vera rangt.
Á meðan Joe Rogan ræddi við Woodley neyddist Buffer til að leiðrétta úrslitin þar sem bardaginn var úrskurðaður jafntefli. Í viðtali við TMZ segir Buffer að honum hafi liðið illa yfir þessum mistökum. „Ég greini bara frá úrslitunum. Ég er ekki að leggja saman stigin,” segir Buffer.
Þá segir Buffer að á stigablöðunum sem dómararnir afhentu honum hafi Woodley verið sagður sigurvegari eftir klofna dómaraákvörðun.
Þegar að niðurstöðunni var breytt var Woodley augljóslega ósáttur en Bruce Buffer segir að þetta hefði getað verið verra. „Guði sé lof tilkynnti ég ekki að Stephen Thompson hefði unnið, það hefði verið alvöru Steve Harvey augnablik,“ segir Buffer og vísar í augnablikið þegar kynnirnn Steve Harvey krýndi vitlausa dömu í Miss World.