spot_img
Wednesday, October 30, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaBryan Barberena: Langar að sjá víkinginn í Gunnari

Bryan Barberena: Langar að sjá víkinginn í Gunnari

Bryan Barberena mætir Gunnari Nelson á UFC 286 á laugardaginn. Barberena er tilbúinn í erfiðan bardaga og vonast til að sjá víkingaarfleifð Gunnars.

Bardagi Gunnars og Barberena fer fram í London á UFC 286 bardagakvöldinu þann 18. mars. Upphaflega átti Gunnar að mæta Daniel Rodriguez en sá síðarnefndi var í vandræðum með vegabréfsáritun á Englandi og gat því ekki ferðast yfir Atlantshafið. Barberena kemur því inn með um það bil mánaðar fyrirvara.

Barberena hefur farið mikinn á samfélagsmiðlum að óska eftir bardögum við meðal annars Niko Price, Ian Garry og Alex Morono þar sem hann var ósáttur við frammistöðuna sína í síðasta bardaga. Hann var því mjög sáttur þegar hann fékk kallið frá UFC.

„Ég vildi fá að berjast aftur sem fyrst eftir tapið gegn Rafael dos Anjos. Ég var því mjög sáttur þegar nafnið hans Gunnars barst mér frá UFC. Eftir síðasta tap fór ég strax að laga mistökin sem ég gerði gegn dos Anjos og er þetta fullkomið tækifæri til að sýna að ég hef gert það. Þetta er fullkominn andstæðingur miðað við það sem ég hef verið að vinna í. Ég gerði mistök gegn Rafael dos Anjos og er pirraður yfir því hvernig það fór en það mun ekki gerast aftur. Ég ætla mér að klára hann,“ sagði Barberena á blaðamannafundinum fyrir bardagann.

„Gunnar er goðsögn í Evrópu og þetta eru tvær goðsagnir að mætast. Ég tel að þetta sé stærri bardagi en bardaginn við Daniel Rodriguez.“

Gunnar er með einstakan stíl þar sem hann berst úr karate stöðu standandi og er mjög hættulegur í gólfinu. Barberena treysti sínu liði og fékk engan sérstakan inn í æfingabúðirnar til að undirbúa sig fyrir Gunnar. „Ég er með mitt lið sem ég treysti. Paul Carson er upprennandi bardagamaður sem hefur hjálpað mér mikið. Hann gaf mér allt sem ég þurfti og við tókum á því saman.“

Gunnar hefur lítið barist undanfarin ár. Gunnar mætti Takashi Sato í mars 2022 en það var hans fyrsti bardagi í rúm tvö ár. Gunnar þurfti að fara í aðgerð eftir bardagann við Sato og var aftur frá búrinu í 12 mánuði.

„Ég þekki vel hvernig er að vera lengi í burtu frá búrinu. Ég býst við bestu útgáfuni af Gunnari sem vill komast á sigurgöngu og ná öðrum sigri í röð. Hann er að reyna að komast aftur á toppinn og er goðsögn eins og ég hef sagt. Ég veit að hann er ennþá í miklum metum í bardagasamfélaginu og mjög virtur í bardagasamfélaginu. Þetta er stór bardagi og stórt fyrir mig.“

Barberena er þekktur fyrir skemmtilega bardaga og óhræddur við að skiptast á höggum við hvern sem er. Hann hefur fimm sinnum fengið bónus fyrir besta bardaga kvöldsins og er vinsæll meðal bardagamanna.

„Mig langar að eiga snyrtilegan bardaga þar sem ég fer ekki í stríð en ég er ekki hræddur eða feiminn við að fara í stríð. Ég þrífst vel þar og næ að skína og er sáttur við það. Mig langar samt ennþá að fá bónus fyrir bestu frammistöðuna (e. performance of the night) frekar en besta bardaga kvöldsins (e. fight of the night) og elti það ennþá.“

„Sigrarnir á Robbie Lawler og Matt Brown höfðu mikla þýðingu fyrir mig. Ég fór í algjört stríð við þá og þeir eru mjög góðir að vinna stríð en ég hafði betur. Ég skiptist á olnbogum við Matt Brown og vann olnbogastríðið. Það hefur enginn tekið Robbie Lawler eins og ég gerði og skipst svona á höggum við hann og klárað hann svona. Það var stórt augnablik og ég vonast eftir öðru slíku um helgina. Mig langar að sjá arfleifð víkinganna í Gunnari. Ég veit að hann vill glíma en ég er líka tilbúinn í það.“

Barberena bjó áður í Tennessee og keyrði til Norður-Karólínu til að æfa hjá Gym-O. Núna flutti hann með alla fjölskylduna og búgarðinn sinn til Norður-Karólínu sem hefur breytt miklu fyrir hann.

„Við vorum búin að tala lengi um þetta að flytja til Norður-Karólínu. Ég var orðinn þreyttur á að ferðast á milli. Það erfiðasta við æfingabúðirnar er fjarveran frá fjölskyldunni. Það tekur mikið á. Ég er betri bardagamaður þegar ég er með fjölskylduna í kringum mig. Ég dó næstum því að keyra á milli og er mjög þakklátur fyrir að vera hér. Ég þarf ekki lengur að ferðast 4 tíma á milli og get þess í stað verið meira með fjölskyldunni. Þannig líður mér best og þannig er ég besta útgáfan af sjálfum mér.“

Barberena er að upplagi glímumaður en hefur mætt sterkum glímumönnum á borð við Colby Covington og Rafael dos Anjos sem hafa tekið hann oft niður í þeirra bardögum. Barberena segir að Gunnar sé með öðruvísi fellur en aðrir glímumenn sem hann hefur mætt. „Gunnar er með meiri jiu-jitsu stíl í fellunum sínum frekar en þessi hefðbundna ólympíska glíma. En ég er búinn að glíma mjög mikið fyrir þennan bardaga. Ég hef bætt mig mikið og sýnt miklar framfarir í þessum æfingabúðum. Það er alltaf erfitt að glíma.“

Fyrsta tap Gunnars var gegn Rick Story í Stokkhólmi 2014. Á þeim tíma æfði Barberena með Rick Story hjá John Crouch í The MMA Lab og kannast Barberena vel við þann bardaga. „Ég talaði ekkert við John Crouch um bardagann eða neitt þannig en ég var í horninu í þessum bardaga og man vel eftir honum.“

UFC 286 fer fram á laugardaginn og verður bardagakvöldið í beinni á Viaplay. Aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl. 21:00 á íslenskum tíma.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular