Thursday, June 13, 2024
spot_img
HomeForsíðaGunnar: Spennandi að deila búrinu með Barberena

Gunnar: Spennandi að deila búrinu með Barberena

Gunnar Nelson mætir Bryan Barberena á laugardaginn á UFC 286. Gunnar býst við skemmtilegum og spennandi bardaga.

Gunnar barðist síðast í mars í fyrra í London og er því ár frá því við sáum hann síðast í búrinu. Gunnar átti upphaflega að mæta Daniel Rodriguez en Bryan ‘Bam Bam’ Barberena kemur inn með um það bil mánaðar fyrirvara í stað Rodriguez.

Gunnar er vanur því að andstæðingarnir breytist og er í rauninni farinn að búast við að breyting verði á andstæðingnum.

„Mér var svo sem sama þegar andstæðingurinn breyttist. Gott að fá annan örvhentan eins og Rodriguez, það er gott. Ég er vanur því að andstæðingarnir breytist, gerist oftar en ekki. Ég er ekki mikið að spá í fyrsta andstæðingnum. Bam Bam er flottur, hann er reynslubolti og ég er ánægður að hann skildi hafa stokkið á þetta,” sagði Gunnar á blaðamannafundinum fyrir bardagann.

„Ég býst eiginlega alltaf við því að andstæðingarnir breytist. Ég horfi á bardaga andstæðingsins og læri á þá en einbeiti mér ekki of mikið á andstæðinginn því ég veit að það eru miklar líkur á að það breytist.“

Gunnar er ánægður að fá Barberena sem hefur verið í UFC frá 2014 og er 9-7 á ferli sínum í UFC. „Hann er spennandi. Mér finnst gaman horfa á bardagana hans, hann er ekki að reyna að sigra á stigum og reynir að klára bardagana. Það er spennandi að horfa á bardagana hans og spennandi að deila búrinu með honum.“

„Ég fer alltaf þarna til að klára þetta og hann líka. Efast um að þetta fari í dómaraákvörðun. Ætla að reyna að klára þetta eins snemma og ég get. Ef ekki, þá í 2. eða 3. lotu. Við sjáum til.“

Gunnar sigraði Takashi Sato í mars í fyrra og var ánægður að komast aftur á sigurbraut eftir tvö töp í röð. „Það var frábært að koma til baka og fá sigurinn, fá sigurtilfinninguna aftur. Átti tvo erfiða bardaga á undan því, bæði töp eftir dómaraákvörðun. Það er ekki skemmtilegt að koma í búrið með tvö töp að baki, mun betra núna.“

Undirbúningurinn fyrir bardagann var að mestu heima á Íslandi og er Gunnar ánægður með æfingabúðirnar fyrir bardagann. „Það eru alltaf einhverjar litlar breytingar á undirbúningnum fyrir bardaga. Þessar æfingabúðir og þær síðustu hafa verið alveg frábærar, aðallega af því ég hef verið heill heilsu í langan tíma. Eftir síðasta bardaga fór ég í nefaðgerð sem ég þurfti að fara í sem var eitthvað sem ég vissi að ég þyrfti að gera á endanum þar sem nefið lokaðist alveg gegn Sato. Ég þurfti að klára það og taka smá pásu en annars verið alveg heill lengi.“

„Dublin: Það var frábært, hann er frábær bardagamaður. Hann talar ekki mikla ensku, erfitt að tengjast að einhverju leiti. En við náðum að æfa vel saman, hann er frábær glímumaður, gott að æfa með honum og auðvitað mjög góður. Það var frábært.“

Gunnar var spurður út í Conor McGregor en Conor er um þessar mundir að þjálfa í The Ultimate Fighter andspænis Michael Chandler. Þeir munu síðan mætast í haust og var Gunnar spurður út í mögulegan bardaga þeirra á milli.

„Ef Conor æfir almennilega og er í formi mun hann rústa Chandler. Við spjöllum saman reglulega, í gegnum Instagram og svona, hann er að gera Conor hluti. Hann lítur út fyrir að vera stór, mjög stór.“

Gunnar hefur varið miklum tíma á golfvellinum á síðustu tveimur árum og tók sitt fyrsta almennilega golfsumar í fyrra. „Síðasta sumar var fysta sumarið mitt í golfinu og ég fór niður í 15 í forgjöf sem er ekki slæmt. Golf er erfitt, mjög erfitt! Að mörgu leiti mun erfiðara en MMA! Þú getur verið alveg frábær, en í næsta skoti ertu versti spilari í heiminum. Það er erfitt, þetta er mjög andlegt, þú verður alveg galinn ef þú missir hausinn.“

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular