Tuesday, April 16, 2024
HomeForsíðaBubbi Morthens: Pressan er öll á Katarinu, ekki Valgerði

Bubbi Morthens: Pressan er öll á Katarinu, ekki Valgerði

Í dag var haldinn veglegur blaðamannafundur í Sportvörum í Kópavogi í tilefni af titilbardaga Valgerðar á laugardaginn. Valgerður, Guðjón Vilhelm og Bubbi Morthens sátu fyrir svörum á blaðamannafundinum.

Bardagi Valgerðar Guðsteinsdóttur (3-0) er sá stærsti í sögu íslenskra hnefaleika og gríðarlega stórt tækifæri fyrir Valgerði. Valgerður mætir Katarinu Thanderz (7-0) í titilbardaga um VBC International Title í Osló.

Bubbi Morthens segir þessa stund gríðarlega mikilvæga fyrir komandi kynslóðir. „Það má ekki gleyma því að Valgerður er að brjóta sögu í íþróttaannálum Íslands. Það hefur enginn Íslendingur, aldrei nokkurn tímann, barist um titil í hnefaleikum, ekki einu sinni á gullöldinni í gamla daga. Þannig að hún er að ryðja braut sem enginn hefur áður rutt,“ segir Bubbi á blaðamannafundinum í dag.

„Hún er að leggja línurnar og ég held að þetta sé líka gríðarlega mikilvægt fyrir yngri kynslóðina og sérstaklega ungar stelpur að eiga svona magnaða fyrirmynd. Algjörlega óheyrt. Og það finnst mér merkilegast við þetta að það er íslensk kona að ryðja braut sem enginn hefur rutt, fyrst allra. Og það eru stórtíðindi.“

Bubbi er sannfærður um að Valgerður muni fara með sigur af hólmi á laugardaginn. „Ég held að hausinn á Valgerði sé sterkari. Ekki vegna þess að hún geti tekið höggin, heldur hef ég trú á vitund hennar og hugarfarinu og ég er sannfærður um að svona gerast hlutirnir. Við þekkjum þetta úr sögunni, svo mörg dæmi um það að fólk hefur fengið tækifæri með nokkra daga fyrirvara og ef þeir eru ágætlega staddir andlega og líkamlega, þá oftar en ekki hafa þeir unnið.“

„Skýrasta dæmið um svona er Michael Bisping. Þegar hann tók titilinn í MMA með viku fyrirvara og var að leika í einhverri bíómynd og stökk inn í hringinn á móti heimsmeistaranum og tók hann. Og ég held að andstæðingur Valgerðar sé búin að vera að undirbúa sig vikum saman með allt aðra manneskju í huga, allt aðra nánd í huga. Og pressan er öll á henni, ekki Valgerði. Valgerður getur ekki tapað á þessum bardaga, alveg sama hvernig hann fer, hún getur ekki tapað honum.“

Guðjón Vilhelm, umboðsmaður Valgerðar, tók undir og sagði alla pressuna vera á Katarinu. Katarina verður á heimavelli á laugardaginn og eru miklar vonir bundnar við hana í Noregi. Vonir standa til að hún verði næsta stórstjarnan í boxinu í Noregi þegar Cecilia Brækhus leggur hanskana á hilluna.

Að lokum sagði Bubbi að næsta skref sé að lögleiða atvinnuhnefaleika á Íslandi og að sýna eigi bardagann í sjónvarpinu.

Bardaginn á laugardaginn verður sýndur í beinni á netinu í gegnum Viasat Sport gegn gjaldi en útlit er fyrir að einungis þeir með norskt kreditkort geti keypt aðgang að bardaganum.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular