Cain Velasquez mætir Fabricio Werdum á UFC 207 þann 30. desember. Þrátt fyrir að hann sé að berjast eftir níu daga getur hann varla staðið í lappirnar fyrir verkjum.
Cain Velasquez er nú þegar bókaður í aðgerð á baki eftir bardagann. Cain á erfitt með að standa uppréttur í meira en 10 mínútur vegna sársauka í hægri fæti. Sársaukanum veldur beinnabbi sem þrýstir á taug í mjöðminni. Cain þurfti að hætta við fyrirhugaðan bardaga gegn Werdum í febrúar á þessu ári vegna svipaðra vandamála.
Cain hefur margoft þurft að hætta við bardaga vegna meiðsla og kom það til tals að hætta við í þetta sinn. Cain er þó hungraður í hefnd gegn Werdum og fann aðra lausn – Cannabidiol (CBD).
Efnið finnst í kannabis plöntunni og notar Cain munnsprey þegar sársaukinn er til staðar. „Ég veit ekki hvað öllum á eftir að finnast um þetta. Þetta [sársaukinn] er bara eitt af því sem við bardagamenn þurfum að ganga í gegnum. NFL leikmenn hafa orðið háðir verkjalyfjum en ég vil ekki verða einhver fíkill,“ segir Cain við ESPN.
CBD er ekki á bannlista UFC utan keppnis og ætlar Cain að nota munnspreyið þar til á morgun eða viku fyrir bardagann. Þá stefnir hann á að fá kortísón sprautu til að minnka sársaukann.
Cain getur æft að vild eins og er en mun fara í sína áttundu aðgerð þann 4. janúar til að skafa af beinanganum til að koma í veg fyrir sársaukann.
UFC 207 fer fram þann 30. desember og mun sigurvegarinn úr viðureign Cain Velasquez og Fabricio Werdum líklegast fá næsta titilbardaga í þungavigtinni.